Leikur hafinn á Íslandsmóti golfklúbba 2021 - allar upplýsingar birtar á golf.is

Leikur hafinn á Íslandsmóti golfklúbba 2021 - allar upplýsingar birtar á golf.is

Íslandsmót golfklúbba 2021 í efstu deild kvenna – og karla hófst í morgun og verður leikið fram á laugardag. Leikið verður á tveimur keppnisvöllum líkt og gert hefur verið undanfarin tvö ár. Keppnisvellirnir eru Hlíðavöllur í Mosfellsbæ og Korpúlfsstaðavöllur (Sjórinn/Áinn).

Keppnisfyrirkomulagið er með hefðbundnu sniði. Alls eru átta golfklúbbar í efstu deild og er þeim skipt upp í tvo riðla.

Tveir efstu klúbbarnir úr hvorum riðli leika til undanúrslita. Í undanúrslitum leikur efsti klúbburinn úr A-riðli við klúbb nr. 2 úr B riðli – og efsti klúbburinn úr B-riðli leikur gegn klúbbi nr. 2 úr A-riðli.

Í karlaflokki er keppt um Íslandsmeistaratitilinn í efstu deild í 61. sinn en fyrst var keppt árið 1961.

Í kvennaflokki var keppt í fyrsta sinn um Íslandsmeistaratitilinn í efstu deild árið 1982 og er mótið í ár það 40. í röðinni í kvennaflokki.

Í karlaflokki hefur Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar fagnað Íslandsmeistaratitlinum undanfarin tvö ár en í kvennaflokki hefur Golfklúbbur Reykjavíkur titil að verja.

Golfklúbbur Reykjavíkur er með flesta titla í karlaflokki eða 24 alls en frá árinu 1961 hafa alls sjö klúbbar fagnað þessum titli. Golfklúbbur Reykjavíkur er einnig með flesta titla í kvennaflokki en GR hefur fagnað þessum titli í 21 skipti en alls hafa fjórir klúbbar staðið uppi sem sigurvegarar í efstu deild kvenna á Íslandsmóti golfklúbba.

Allar fréttir af Íslandsmóti golfklúbba - rástímar, úrslit leikja, myndir og ýmsar aðrar upplýsingar verða birtar á golf.is 

Myndasafn frá Íslandsmóti golfklúbba 2021 má sjá hér

Við hvetjum okkar félagsmenn til að mæta á vellina og fylgjast með leik sveitanna.

Áfram GR!

Til baka í yfirlit