Liðakeppni GR 2020: J.Lindeberg bikarinn - skráning hafin

Liðakeppni GR 2020: J.Lindeberg bikarinn - skráning hafin

Skráning er hafin í liðakeppni GR 2020. Styrktaraðili keppninnar í ár J.Lindeberg sem framleiðir frábæran fatnað fyrir kylfinga og er seldur í  hjá Kultur menn í Kringlunni og í Örninn Golfverlsun

Liðakeppni er keppni á milli golfhópa og er leikfyrirkomulag svipað og í sveitakeppni milli golfklúbba. Stór hluti kylfinga kynnist því aldrei að vera hluti af liði í golfíþróttinni en gefst hér tækifæri til að kynnast því. Þeir sem hafa tekið þátt í þessari keppni undanfarin ár hafa látið vel af og hefur mikil og góð stemming myndast meðal keppenda.

Leikið er í riðlum, þar sem öll lið í hverjum riðli leika innbyrðis. Það fer eftir fjölda liða hve riðlarnir verða stórir en reikna má með 4-5 liðum í hverjum riðli. Riðlakeppnin fer fram í júlí mánuði.

Að lokinni riðlakeppni hefst útsláttarkeppni 8 bestu liðanna. Útsláttarkeppnin verður leikin í ágúst.

Mótinu lýkur með úrslitaleik í lok ágúst. Að leik loknum verður hátíðarkvöldverður og allir leikmenn beggja liða fá verðlaun frá J.Lindeberg.

Keppnin er fyrir alla klúbbmeðlimi 19 ára og eldri, þannig að karlahópar, kvennahópar eða blönduð lið eru gjaldgeng. Leikið er með fullri forgjöf í liðakeppni. Þátttökugjald er 6.000 krónur á hvert lið og greiðist við skráningu.

Skráning er hafin og fer fram í gegnum mótakerfi Golfbox - Hér er hlekkur á skráningu

Allir leikirnir í keppninni verða leiknir á Korpúlfstaðavelli og koma liðin sér saman um leikdag innan auglýstra tímamarka. Leiknar eru 9 holur í hverri viðureign. Í hverjum leik keppa 4 leikmenn fyrir sitt lið, þar sem fram fara 2 holukeppnisleikir (tvímenningur) og einn leikur þar tveir leika saman í liði og betra skor gildir á hverri holu (fjórleikur). Í úrslitaleik keppninnar keppa 8 leikmenn fyrir hvort lið.

Skrá þarf liðsstjóra og gefa upp símanúmer og netfang hjá viðkomandi. Mótsstjóri er Atli Þór Þorvaldsson og er hægt að senda fyrirspurnir vegna liðakeppni á atli@grgolf.is

Skráningarfrestur er til miðvikudagsins 1. júlí.

Til baka í yfirlit