Liðakeppni GR – skráning er hafin

Liðakeppni GR – skráning er hafin

Það voraði snemma í ár og golfsumarið er komið á fullt hjá kylfingum. Liðakeppnin er partur af félagsstarfi klúbbsins og er skráning nú hafin í liðakeppni GR 2019.

Liðakeppni er keppni á milli golfhópa. Sniðið á þessu er svipað og í sveitakeppni milli golfklúbba. Stór hluti kylfinga kynnist því aldrei að vera hluti af liði í golfíþróttinni. Þeir sem hafa tekið þátt í þessari keppni undanfarin ár hafa látið vel af og mikil og góð stemming hefur myndast.

Leikið er í riðlum, þar sem öll lið í hverjum riðli leika innbyrðis. Það fer eftir fjölda liða hve riðlarnir verða stórir en reikna má með 4-6 liðum í hverjum riðli.

Að lokinni riðlakeppni hefst útsláttarkeppni 8 bestu liðanna.

Keppnin er fyrir alla klúbbmeðlimi 19 ára og eldri, þannig að karlahópar, kvennahópar eða blönduð lið eru gjaldgeng. Leikið er með fullri forgjöf í liðakeppninni. Þátttökugjald er 5.000 krónur á hvert lið. Greiðsluseðill verður sendur á liðsstjóra hvers liðs.

Í þessari keppni eru allir leikir spilaðir á Korpúlfstaðavelli og koma liðin sér saman um leikdag innan auglýstra tímamarka. Leiknar eru 9 holur í hverri viðureign. Í hverjum leik keppa 4 leikmenn fyrir sitt lið, þar sem fram fara 2 holukeppnisleikir (tvímenningur) og einn leikur þar tveir leika saman í liði og betra skor gildir á hverri holu (fjórleikur)

Skráning liða í keppnina skal tilkynnast á netfangið atli@grgolf.is

Skrá þarf liðsstjóra og gefa upp símanúmer og netfang hjá viðkomandi.

Einnig þarf að fylgja með listi yfir leikmenn liðsins, að lágmarki 6 leikmenn og mest 10 leikmenn.

Lið sem komast áfram úr riðlakeppninni verða að tilkynna a.m.k. 8 leikmenn áður en útsláttarkeppni hefst.

Tekið er við skráningum fram til föstudagsins 31. maí næstkomandi.

Kveðja,
Mótanefnd

Til baka í yfirlit