Sælar kæru GR konur,
Linda Björk Bergsveinsdóttir er Púttmeistari GR kvenna árið 2019.
Skemmtilegri og spennandi púttmótaröð er nú lokið.
Líkt og undanfarin ár var frábær þátttaka í púttmótaröð GR kvenna en tæplega tvöhundruð konur skráðu sig til leiks í upphafi vetrar. Í kringum 100 konur mættu á hverju púttkvöldi en púttað var vikulega á þriðjudögum. Tveir hringir voru spilaðir hvert kvöld þar sem betri hringur taldi og til púttmeistara töldu 4 bestu hringirnir. Mótaröðinnni lauk í gær með krýningu á Púttmeistara GR kvenna 2019 í lokahófi á Korpunni. Þar gæddu konur sér á ljúfum veitingum frá Ostabúðinni á Skólavörðustíg.
Linda fór fjóra bestu hringina sína á samtals 105 höggum sem er frábær frammistaða, önnur í mótinu varð Inga Jóna Stefánsdóttir á 113 höggum og í þriðja sæti varð Lilja Viðarsdóttir. Konur röðuðu sér svo þétt á eftir þeim efstu. Aldeilis flott frammistaða og örugglega ávísun á það sem koma skal hjá okkar konum í sumar.
GR konur óska Lindu Björk Bergsveinsdóttur innilega til hamingju með frábæran árangur.
Við þökkum öllum þátttökuna í púttmótaröðinni. Nú styttist í vorið og við bíðum eflaust flestar spenntar eftir því að spretta út á græna grund og njóta golfs og samveru.
Meðfygjandi er lokastaðan eftir 9 púttkvöld:
puttmótaröð 2019 lokastaða.pdf
Vorferð
Árlega vorferðin okkar verður farin sunnudaginn 26.maí, takið daginn frá því þá förum við á vit ævintýranna og spilum golf í sveit. Vorferðin hefur verið á meðal skemmtilegustu viðburða í starfi GR kvenna, eitthvað sem engin má missa af.
Sumarmótaröð
Sumarmótaröðin byrjar svo miðvikudaginn 29. maí. og verður spilað annan hvern miðvikudag fram í lok ágúst/byrjun september, alls átta skipti. Svo verður meistaramótið á sínum stað í júlí og haustmót GR kvenna í september.
Við í kvennanefndinni hlökkum mikið til að starfa með ykkur áfram í vor og sumar, allar ábendingar um starfið eru vel þegnar sem og ef þið hafið möguleika á að aðstoða með vinninga fyrir komandi mót þá megið þið endilega hafa samband.
Kær kveðja,
Kvennanefnd GR