Lokaskýrsla yfirdómara GR 2019

Lokaskýrsla yfirdómara GR 2019

Góðan daginn kæru félagsmenn GR,

Nú í lok frábærs golfsumars er ekki úr vegi að koma með skýrslu yfirdómara, það sem einkenndi sumarið var að leikhraðinn var mjög góður, ítrekað voru leikmenn að spila á innan við 4 tímum, og má þakka mest leikmönnunum sjálfum fyrir að vera meira meðvitaðir um leikhraðann, svo eru nýju reglurnar einnig að hjálpa okkur og þar er stöngin og ready golf sem vega þar mest.

Dómarahornið og email dómara hafa vakið mikla lukku, það komu 13 fyrirspurnir til dómara í sumar og nokkrar af þeim hafa verið birtar í dómarahorni GR.  Við hvetjum félagsmenn að halda áfram að senda fyrirspurnir.

Það sem hvað mest var umtalað varðandi golfreglurnar í sumar, var eftir að við settum á hreyfingarlaust golf, þ.e. allar flatir á báðum völlunum og á brautum á Korpunni, í grunninn er golf leikið sem hreyfingarlaust golf, hinsvegar á vorin er heimilt að vera með staðarreglu sem leyfir færslur á braut.  Þar sem við búum á Íslandi þá er allur gróður ekki fulkominn en eftir að brautirnar á Korpunni eru orðnar sæmilegar þá er ekkert annað í stöðunni en að sleppa færslum og spila völlinn eins og hann er, auðvitað geta menn lent í vafasamri legu á braut, en það er enginn sem segir að við eigum alltaf rétt á hinni fullkomnu legu þrátt fyrir að vera á braut, okkar vellir eru eins og þeir eru og Korpuna þarf að spila eins og hún er.  Hvað Grafarholtið varðar þá eru brautir þar mjög holóttar og hæðóttar og því hafa verið leyfðar færslur á þeim allt sumarið. Hvað verður í framtíðinni er ekki vitað en vonandi verður Grafarholtið einhverntíman það gott að hægt sé að spila það hreyfingarlaust.  Félagsmenn geta átt von á sambærilegu næsta sumar og jafnvel að sleppa færslum fyrr en var gert í sumar, draumurinn er að geta spilað Korpuna hreyfingarlaust golf frá 1. Júní ár hvert.

Ég vil hvetja alla félagsmenn um að lesa reglurnar í vetrarfríiinu, þær geta hjálpað ykkur útá velli og sparað högg.  Flestir kylfingar fengu reglubókina heimsenda í vor, en einnig er hægt að nálgast reglubækurnar inná vefsvæði GSI: https://mitt.golf.is/#/umgsi/domaramal/

Nauðsynlegt er fyrir alla kylfinga að þekkja skilgreiningar mjög vel, þær eru allar aftarlega í golfbókinni og byrja á blaðsíðu 135 í Leikmanna útgáfu Golfreglanna  Vil benda sérstaklega á skilgreininguna á „Lausnarsvæði“ á bls 141.

Hvet ég kylfinga til að kynna sér eftirfarandi reglur mjög vel þar sem þær eru með algengustu reglum sem þarf að nota og geta hjálpað kylfingum og sparað þeim högg og jafnvel lækkað forgjöfina.

Regla 14 og þá sérstaklega, 14.3, þar sem ítarlega er farið í hvernig menn láta bolta falla og farið yfir lausnarsvæði.

Regla 15, Lausn frá lausung og hreyfanlegum hindrunum, þetta er klárlega að hjálpa kylfingum og gæti komið boltanum í mun betri stöðu til að slá ykkar högg.

Regla 16, Lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum, með því að þekkja þessa reglu vel er mjög oft hægt að koma sér í mun betri legu og þægilegra högg.

Regla 17, Vítasvæði, þetta er það sem kylfingar þurfa oftast að vinna með reglurnar og því mikilvægt að kunna góð skil á þessari reglu.

Þeir sem eru mjög áhugasamir um reglurnar og hafa áhuga á að taka þátt í dómarastörfum GR, vil ég benda mönnum á héraðsdómaranámskeið og próf hjá GSÍ og eftir það eru menn gjaldgengir í hópinn okkar.  Félagsmenn geta verið í sambandi við domari@grgolf.is til að fá nánari upplýsingar.  Gaman væri ef konur myndu skella sér í prófið og taka þátt í okkar starfi.  Hver hópur í GR ætti að vera með sinn fulltrúa í dómarahópnum.

Mig langar að nefna það að um næstu áramót tekur við nýtt forgjafarkerfi og verður það kynnt mjög vel þegar nær dregur.  Einnig mun GSÍ taka upp nýtt golf.is kerfi sem kallast Golfbox, það hefur verið notað lítillega í sumar við mótahalda og notaði GR það þegar Íslandsmótið var haldið til að keppendur gætu skráð skorið og til að birta live upplýsingar á vefsíðum.

Að endingu vil ég þakka öllum félagsmönnum GR fyrir samstarfið í sumar.

Aron Hauksson
Yfirdómari GR

Til baka í yfirlit