Meistaramót GR 2019 - tilkynning frá mótanefnd

Meistaramót GR 2019 - tilkynning frá mótanefnd

Þar sem voraði óvenju snemma þetta árið þá má segja að golfsumarið sé komið vel af stað og áður en við vitum er komið að Meistaramóti en það verður haldið dagana 7. – 13. Júlí í ár.  Eins og undanfarin ár mun mótið vera leikið á báðum völlum félagsins og verður um 3ja og 4ra daga keppni að ræða eftir mismunandi flokkum og hefur sú breyting verið gerð á að forgjafalægstu flokkar öldunga munu leika 4ra daga keppni, 72 holur.

Mótanefnd hefur ákveðið að í ár skuli punktakeppni, sem leikin var í nokkrum flokkum á síðasta ári, ekki vera leikin. Í stað þess verður leikið höggleiksafbrigði kallað „Hámarksskor“, skv. reglu 21.2 (2019 reglurnar), hámarksskorið verður 10 högg á hverri holu sem þýðir að ef leikmenn eru búnir að ná þeim fjölda högga á holu þá er boltinn tekinn upp, og 10 skrifað á holuna. Eftirtaldir flokkar leika skv. þessari reglu:

Börn og unglingar 16 ára og yngri
2. flokkur karla og kvenna
3. flokkur karla og kvenna
4. flokkur karla og kvenna
5. flokkur karla
50 ára og eldri, karlar og konur
70 ára og eldri, karlar og konur
 

Leikdagar flokka í Meistaramóti:
Sunnudaginn 7. júlí til þriðjudagsins 9. júlí leika allir barna- og unglingaflokkar, 70 ára og eldri karlar, 50 ára og eldri karlar í forgjafarflokkum 10,5-20,4 og 20,5-54. 70 ára og eldri konur, 50 ára og eldri konur í forgjafarflokkum 16,5-26,4 og 26,5-54. Þá leika einnig 3. flokkur karla og kvenna og 4. og 5. flokkur karla. Þessir flokkar leika þriggja daga mót eða 54 holur.

Miðvikudaginn 10. júlí til laugardagsins 13. júlí leika karlar 50 ára og eldri í forgjafarflokk 0-10,4 og konur 50 ára og eldri í forgjafarflokk 0-16,4, 2.flokkur karla og kvenna, 1.flokkur karla og kvenna og Meistaraflokkur karla og kvenna. Þessir flokkar leika fjögurra daga mót eða 72 holur. 

Keppendur 18 ára og yngri leika í sínum aldursflokki nema að þeir hafi meistaraflokksforgjöf þá er þeim heimilt að leika í Meistaraflokki. 

Vakin er athygli á því að allar upplýsingar eru birtar með fyrirvara um breytingar.

Mótanefnd

 

Til baka í yfirlit