Nýliðamót GR haldið á sunnudag – 4 manna texas scramble

Nýliðamót GR haldið á sunnudag – 4 manna texas scramble

Nýliðamót Golfklúbbs Reykjavíkur verður haldið næstkomandi sunnudag, 12. maí og verður leikið á Korpúlfsstaðavelli Landið/Áin. Mótið er hugsað til að bjóða nýja meðlimi sérstaklega velkomna og að sjálfsögðu eru þeim félögum sem lengur hafa verið í klúbbnum jafn velkomið að taka þátt. Leikfyrirkomulag mótsins er Texas scramble höggleikur með forgjöf, fjórir leikmenn saman í liði. Forgjöf liðs er samanlögð vallarforgjöf leikmanna deilt með 10. Hámarksforgjöf sem gefin er til hvers leikmanns er 36. Til að gera leikinn ennþá skemmtilegri verður eftirfarandi regla í gildi: Skylt verður að velja að minnsta kosti tvö teighögg frá hverjum liðsmanni. Ræst verður út frá kl. 09:00.

Skráning í mótið hefst miðvikudaginn 8. maí kl. 15:00, á www.golf.is og lýkur á laugardag kl. 14:00 – mótsgjald er kr. 3.400 og þarf að greiða við skráningu.

Veitt verða verðlaun fyrir 3 efstu sætin auk þess sem nándarverðlaun verða veitt á öllum par 3 holum vallarins. 

Verðlaun í Nýliðamóti GR:
1. sæti: GR merkt Footjoy peysa og bolur + boltakort í Bása
2.sæti:  GR merkt Peysa + boltakort í Bása
3.sæti:  GR merktur bolur + boltakort í Bása

Nándarverðlaun: Gullkort á æfingasvæði Bása

Korpa klúbbhús ætlar að veita 10% kynningarafslátt af öllum réttum á matseðli og munu einnig bjóða upp á súpu og kaffi með hverjum keyptum rétti.

Reglubók Golfklúbbs Reykjavíkur - Skráning og mætingar í mót.
9.1 Mótshaldara er heimilt að krefjast greiðslu þátttökugjalda við skráningu. Keppandi á ekki rétt á endurgreiðslu þátttökugjalds boði hann forföll til mótsstjórnar/nefndarinnar, síðar en kl. 18.00 daginn fyrir fyrsta keppnisdag.  Mótsstjóri er Harpa Ægisdóttir, harpa@grgolf.is

Til baka í yfirlit