Nýr vinavallarsamningur – 9 holur í Húsafelli

Nýr vinavallarsamningur – 9 holur í Húsafelli

Golfklúbbur Reykjavíkur hefur gert vinavallarsamning við Hótel Húsafell en þar er að finna 9 holu golfvöll sem hannaður var af Hannesi Þorsteinssyni. Brautir vallarins liggja meðfram bökkum Kaldár og Stuttár, þar sem kylfingar þurfa að vanda sig vel við leik því brautirnar liggja víða yfir vatn og oft er stutt í skóginn. Fyrsti teigur liggur neðan við sundlaugina en þar í afgreiðslu er gengið frá vallargjöldum.

Félagsmenn GR greiða kr. 2.500 fyrir leik á vellinum og gilda sömu reglur og á öðrum vinavöllum klúbbsins. Áður en leikur hefst skulu félagar framvísa félagsskírteini og greiða vallargjald í afgreiðslu. Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum, sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti af vallargjöldum, eins og t.d fyrirtækjamót.

Einstakt sumartilboð á Hótel Húsafelli - gisting og morgunverður

Hótel Húsafell er fyrsta hótelið á Norðurlöndum sem hlotnast sá heiður að vera á lista National geographic unique lodges of the world. Skilyrði fyrir því að komast á þann lista er að leggja áherslu á sjálfbærni, góða þjónustu við gesti og að vera umvafin stórbrotinni náttúru. Þá eiga hótelin það jafnframt sammerkt að vera á „einstökum stöðum í heiminum þar sem gestir geta átt ógleymanlega upplifun í faðmi náttúru og sögu staðarins.“

Í sumar býður hótelið upp á einstakan tilboðspakka þar sem innifalið er gisting fyrir tvo, morgunverður, aðgangur að sundlaug auk aðgangs að golfvellinum á aðeins kr. 29.990. Tilboðið gildir frá 1.júní-31.ágúst og fara bókanir fram í gegnum booking@hotelhusafell.is eða í síma: 435-1551.

Við fögnum þessum nýja vinavallarsamningi og vonum að félagsmenn nýti sér aðgang að golfvellinum í Húsafelli í sumar. 

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit