Ólafía endaði í 69.- 76. sæti eftir erfiðan þriðja hring

Ólafía endaði í 69.- 76. sæti eftir erfiðan þriðja hring

Þriðji hringur Ólafíu Þórunnar í gær gekk ekki eins vel og fyrstu tveir en hún spilaði hringinn á 77 höggum eða 4 yfir pari vallar. Ólafía segir gærdaginn hafa verið erfiðan og að hún hafi ekki náð að slaka á og einbeita sér líkt og fyrstu tvo hringina þar sem hún lék glæsilegt golf.

Ólafía byrjaði gærdaginn ágætlega og fékk fjögur pör á fyrstu fjórum holunum. Hún náði að bjarga sér vel á 1. braut þar sem hún kom sér í erfiða stöðu eftir innáhöggið sem lenti utan flatar. Hún bjargaði sér einnig á 3. braut þar sem hún tryggði parið með höggi úr glompu við flötina.

Hún fékk skolla á 5. braut sem er par 3 hola, þar sem hún sló í glompu í upphafshögginu og hún þurfti tvö pútt á flötinni. Á 8. braut fékk Ólafía víti þar sem hún sló í hliðarvatnstorfæru vinstra meginn við flötina í upphafshögginu. Hún vippaði inn að stöng og tryggði parið. Á 9. braut sló hún innáhöggið í glompu við flötina og tvípúttaði af frekar stuttu færi.

Ólafía fékk skolla á 10., en lagaði stöðu sína með góðu 7 metra pútti fyrir fugli á þeirri 12. Hún fékk síðan fjögur pör í röð og var nokkuð nálægt því að setja niður pútt fyrir fugli á 14., og 16. Á 17. braut sem er par 3 hola sló Ólafía langt til vinstri og náði ekki að vinna úr þeirri stöðu, annað höggið var misheppnað og hún fékk skolla.

Upphafshöggið á 18. fór í vatnstorfæruna hægra meginn við brautina, þaðan sló hún frekar stutt í þriðja högginu. Ólafía vippaði næstum því í fyrir parinu á 18 en varð að sætta sig við skolla.
Fjórði og síðasti dagur mótsins er í dag og það verður spennandi að fylgjast með hvað okkar kona gerir á lokahringnum – við sendum henni okkar bestu óskir um gott gengi á vellinum!

Hægt er að fylgjast með stöðu í mótinu hér

Frétt fengin af golf.is

Til baka í yfirlit