Á morgun er stór dagur hjá Ólafíu Þórunni en þá leikur hún sinn fyrsta hring á LPGA mótaröðinni í Pure Silk mótinu sem fram fer á Bahamas. Ólafía byrjar í ráshóp með stórstjörnum í golfinu þeim Cheyenne Woods og Natalie Gulbies, þær hefja leik á fyrsta teig kl. 08:22 að staðartíma eða kl. 13:22 að íslenskum tíma.
Flestir bestu kylfinga heims eru mættir til leiks og er veðurspáin góð fyrir næstu daga, hiti um 25 gráður en þó einhver vindur og segir Ólafía að hún hafi æft í „íslensku roki“ og að erfitt gæti orðið að skora hann ef rokið heldur áfram, að öðru leyti segir hún keppnisvöllinn fínan.
Golfstöðin mun sýna beint frá móti helgarinnar líkt og öðrum stórmótum og ætlar stöðin að bjóða félagsmönnum GR tilboð á áskrift af þessu tilefni. Um er að ræða 7 mánaða binditíma með 25% afslætti, þannig geta félagsmenn tryggt sér aðgang að golfstöðinni yfir helstu mánuði golftímabilsins og fylgst með helstu stórmótunum auk fjölda minni móta. Beinar útsendingar eru alla fimmtudaga til sunnudaga flestar vikur ársins, meðal þeirra móta sem á dagskrá eru næstu mánuði auk LPGA má nefna: The Masters – The Players – US Open – The Open og PGA meistaramótið.
Vilji félagsmenn að nýta sér þetta áskriftartilboð hjá Golfstöðinni skulu þeir senda póst á netfangið grgolf@365.is fyrir 1. febrúar.
Þar sem ljóst er að mikill kostnaður er framundan hjá Ólafíu Þórunni þá hefur Golfklúbbur Reykjavíkur ákveðið að hrinda af stað söfnun fyrir afrekssjóð GR henni til heiðurs – þess má geta að Ólafía Þórunn er styrkþegi úr afrekssjóði GR. Hægt verður að hringja í eftirfarandi styrktarlínur:
Þú hringir í síma 908-1551 og styrkir um 1.000 kr.
Þú hringir í síma 908-1552 og styrkir um 2.000 kr.
Þú hringir í síma 908-1553 og styrkir um 5.000 kr.
Við sendum góðar kveðjur til okkar konu á Bahamas og óskum henni alls hins besta á komandi helgi!
Golfklúbbur Reykjavíkur