Nú styttist í að nýtt keppnistímabil LPGA mótaraðarinnar hefjist og er Ólafía Þórunn, atvinnukylfingur, byrjuð að undirbúa sig fyrir komandi keppnistímabil. Hún tekur þátt á sínu fyrsta móti núna í lok janúar en það fer fram á Bahamas.
Ólafía er nú í Bandaríkjunum ásamt þjálfara sínum, Derrick Moore og fagteymi GSÍ á fullu í undirbúningi og hefur mest verið að æfa sig í stutta spilinu og púttunum. Jussi Pitkanen afreksstjóri GSÍ og Baldur Gunnbjörnsson sjúkraþjálfari eru í fagteyminu og henni innan handar við.
Þjálfari Ólafíu, Derrick Moore, hefur starfað hjá GKG í nokkur ár, hann hefur þrívegis verið kjörinn þjálfari ársins hjá PGA samtökunum á Íslandi, 2011, 2015 og 2016.
Jussi Pitkanen er afreksstjóri GSÍ og hefur hann m.a. farið í gegnum leikskipulag með Ólafíu og Derrick í þessari ferð í Bandaríkjunum.
Það verður gaman að fylgjast með árangri Ólafíu á komandi keppnistímabili og óskum við henni að sjálfsögðu alls hins besta.