Ólafur Björn afreksstjóri GSÍ hefur valið 39 kylfinga í landsliðshóp

Ólafur Björn afreksstjóri GSÍ hefur valið 39 kylfinga í landsliðshóp

Nú á dögunum voru 39 kylfingar valdir í landsliðshóp GSÍ og á Golfklúbbur Reykjavíkur þar 13 fulltrúa – 8 í hópi karlalandsliðs og 5 í hópi kvennalandsliðs.

„Ég er í skýjunum yfir fyrstu landsliðsæfingabúðir vetrarins þar sem ég fann fyrir miklum krafti, áhuga og einbeitingu landsliðskylfinga,“ segir Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri Golfsambands Íslands.

Hópurinn hittist um s.l. helgi og hófst dagskráin á föstudaginn með kynningu á starfseminni í bland við fræðslu um ýmislegt sem tengist afreksgolfi. Á laugardaginn fór hópurinn í líkamsþjálfun hjá Baldri Gunnbjörnssyni sjúkraþjálfara og æfði í Kórnum, þar sem að GKG er með æfingaaðstöðu.

Atvinnukylfingarnir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Haraldur Franklín Magnús og Axel Bóasson hittu hópinn sunnudagsmorgun og deildu þau reynslu sinni af atvinnumennsku í golfi og svöruðu spurningum landsliðskylfinga. Að því loknu fór fram æfing í Hraunkoti, æfingaaðstöðu Keilis í Hafnarfirði.

Landsliðshópurinn mun hittast alls sjö sinnum í vetur þar sem að lögð verður áhersla á fjölbreytta fræðslu og keppnislíkar æfingar. Stærstu landsliðsverkefni næsta sumars eru Evrópumót liða í júlí og Heimsmeistaramót karla og kvenna í Frakklandi í ágúst þar sem keppt er á Le Golf National vellinum en þar var Ryder Cup haldinn árið 2018.

Sjá má frétt á golf.is um val í landsliðshópinn hér

Til baka í yfirlit