Golfklúbbur Reykjavíkur og Opin Kerfi hf. hafa undirritað samstarfssamning til næstu þriggja ára. Í samningnum felst fjölbreytt samstarf félaganna á ýmsum sviðum. Opin Kerfi verða þar með einn helsti styrktaraðili Golfklúbbs Reykjavíkur og aðalstyrktaraðili Grafarholtsvallar.
„Það hefur verið mikill áhugi meðal starfsmanna Opinna Kerfa á golfíþróttinni og þar er rík golfhefð. Það er okkur því sönn ánæga að geta stutt vel við það góða starf sem er unnið hjá Golfklúbbi Reykjavíkur sem er stærsti golfklúbbur landsins,“ segir Reynir Stefánsson, framkvæmdarstjóri sölu- og markaðsmála hjá Opnum Kerfum.
Opin Kerfi er leiðandi aðili í þjónustu og rekstri upplýsingakerfa við mörg af öflugustu fyrirtækjum landsins. Fyrirtækið er einnig umboðs og söluaðili margra heimþekktra fyrirtækja, svo sem HP, Aruba, HPE, Cisco, RedHat og Microsoft svo dæmi sé tekið.
„Það ríkir mikil ánægja innan GR með þennan samstarfssamning sem er afar mikilvægur fyrir félagið. Það skiptir mjög miklu máli að fá slíkan stuðning og gerir okkur kleift að halda áfram að efla og bæta okkar starf í þágu hinna fjölmörgu golfiðkendur félagsins,“ segir Ómar Friðriksson , framkvæmdastjóri GR. Golfklúbburinn er sá fjölmennasti hér á landi og telur rúmlega þrjú þúsund félagsmenn.
Mynd: Reynir Stefánsson, framkvæmdarstjóri sölu- og markaðsmála Opinna Kerfa, Ragnheiður Harðar Harðadóttir, forstjóri Opinna Kerfa, Ómar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri GR, og Dóra Eyland þjónustustjóri GR við undirritun samstarfssamningsins.