Opnunarmót Korpu fer fram miðvikudaginn 1. maí – gleðilegt sumar!

Opnunarmót Korpu fer fram miðvikudaginn 1. maí – gleðilegt sumar!

Ágætu félagsmenn, um leið og við óskum ykkur gleðilegs sumars þá er það ánægjuefni að tilkynna að Korpúlfsstaðavöllur mun opna formlega með Opnunarmóti Korpu miðvikudaginn 1. maí.  Lykkjur sem leiknar verða eru Sjórinn/Áin og er leikfyrirkomulag mótsins punktakeppni. Hæst er gefin forgjöf 24 hjá körlum og 28 hjá konum. Leikið er í tveimur flokkum 0-14 og 14,1 og hærra. Þeir félagsmenn sem ekki ætla að skrá sig til leiks í mótið geta bókað rástíma í 9 holur á Landinu. Athugið að bóka þarf alla rástíma um leið og völlur okkar opnar formlega.

Skráning í mótið hefst föstudaginn 26. apríl kl. 12:00 á www.golf.is - mótsgjald er kr. 3.400 og greiðist við skráningu. Við vekjum athygli á því að golfverslanir hafa ekki opnað fyrir komandi tímabil og er því eingöngu hægt að skrá sig í gegnum vefinn.

Veitt verða verðlaun fyrir 3 efstu sætin í hverjum flokki. Nándarverðlaun verða veitt á öllum par 3 holum vallarins og að auki verða veitt verðlaun fyrir besta skor. 

Tilkynning um umferð golfbíla á vellinum verður gefin út þriðjudaginn 30. apríl.


Verðlaun í Opnunarmóti Korpu:

Forgjöf 0 – 14
1. sæti: GR merkt Footjoy peysa og bolur
2.sæti:  GR merkt Footjoy peysa
3.sæti:  GR merktur Footjoy bolur

Forgjöf 14,1 - og hærra
1.sæti: GR merkt Footjoy peysa og bolur
2.sæti: GR merkt Footjoy peysa
3.sæti: GR merktur Footjoy bolur

Besta skor:
1. sæti: GR merkt Footjoy peysa og bolur

Nándarverðlaun á öllum par 3 holum vallarins: Gullkort á æfingasvæði Bása.

Reglubók Golfklúbbs Reykjavíkur - Skráning og mætingar í mót.
9.1 Mótshaldara er heimilt að krefjast greiðslu þátttökugjalda við skráningu. Keppandi á ekki rétt á endurgreiðslu þátttökugjalds boði hann forföll til mótsstjórnar/nefndarinnar, síðar en kl. 18.00 daginn fyrir fyrsta keppnisdag.  Mótsstjóri er Dóra Eyland, dora@grgolf.is

 

Tiltektardagur þriðjudaginn 30. apríl á Korpu

Eins og fram hefur komið hér að ofan þá gleður okkur það félagsmenn góðir að Korpan skuli opna formlega miðvikudaginn 1. maí. Samhliða opnun langar okkur því okkur að óska eftir ykkar aðstoð við að gera völlinn tilbúinn fyrir opnun á tiltektardegi sem haldinn verður á þriðjudag.

Þriðjudaginn 30. apríl, frá klukkan 16:30 munum við taka höndum saman og klára nokkur mikilvæg verk sem eftir eru. Við ætlum eingöngu að taka Korpu fyrir í þetta skiptið. Okkar von er að veðurspá verði góð og við getum haft gaman af því að taka til hendinnni og gera okkur glaðan dag.

Mæting er í klúbbhús okkar að Korpu þar sem Hólmar Freyr Christiansson, vallarstjóri, útdeilir verkefnum á mannskapinn. Í lokin verða Guðmundur og Mjöll nýráðið veitingarfólk okkar með drykki frá Ölgerðinni og grillaðar pylsur fyrir þá sem taka þátt í fegrun Korpu. Margar hendur vinna létt verk!

Allir þeir sem leggja okkur lið þennan dag hafa rétt á að leika 9 holur að tiltektardegi loknum.

Kynning og mátun á GR merktum fatnaði

Á tiltektardegi ætlum við einnig að hafa kynningu og mátun á nýjum Footjoy fatnaði fyrir félagsmenn. Starfsmenn frá ÍSAM verða á staðnum til að aðstoða fólk. á meðfylgjandi mynd má sjá það úrval sem er í boði ásamt þeim verðum sem fatnaðurinn fæst á fyrir félagsmenn, innifalið í öllum verðum er ísaumað lógó GR.

Hlökkum til að sjá sem flesta og kynnast nýjum félögum í klúbbnum - gleðilegt golfsumar!

Ómar Örn Friðriksson,
Framkvæmdastjóri

Til baka í yfirlit