Opnunarmóti Grafarholts frestað – völlurinn opnar formlega laugardaginn 26. maí

Opnunarmóti Grafarholts frestað – völlurinn opnar formlega laugardaginn 26. maí

Ágætu félagsmenn, veðurspá hefur ekki verið okkur hliðholl undanfarna daga. Spáð er mikilli úrkomu og vindi bæði laugardag og sunnudag. Því hefur sú ákvörðun verið tekin að fresta Opnunarmóti Grafarholts. Þeir félagsmenn sem höfðu skráð sig og greitt mótsgjald munu fá bakfærslu næstkomandi mánudag, eins mun ný dagsetning um mótið vera tilkynnt á mánudag.

Völlurinn mun engu að síður opna formlega fyrir félagsmenn okkar á morgun, laugardaginn 26. maí. Við biðjum félagsmenn þó að hafa í huga að völlurinn er viðkvæmur og óskum við sérstaklega eftir því að gengið verði vel um völlinn okkar. Völlurinn þarf ást og umhyggju sinna félagsmanna eftir erfiðan vetur.

Fyrst um sinn verður öll bílaumferð bönnuð á vellinum, Tilkynnt verður á vefsíðu klúbbsins hvenær opnað verður fyrir golfbíla.

Unnið hefur verið í drenframkvæmdum á 7. braut í vetur eins og auglýst hefur verið á vefsíðu okkar. Veðurfar síðustu vikna hefur haft það í för með sér að framkvæmdum hefur aðeins seinkað, fyrst um sinn verður spilað inn á vetrarflöt á þeirri braut.

Með opnun Grafarholtsvallar þá eru báðir vellir klúbbsins formlega opnir fyrir félagsmenn okkar. Öll æfingasvæði eru þá einnig formlega opnuð.

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit