Golfklúbbur Reykjavíkur kynnir í samstarfi við Örninn Golfverslun nýja mótaröð fyrir félagsmenn. Mótaröðin ber nafnið Örninn Golfverslun – Mótaröð GR. Um er að ræða aldursflokkaskipta punktakeppni. Keppnin er fyrir alla fullgilda meðlimi GR 19 ára og eldri.
Leikið verður vikulega og til skiptis á Korpúlfsstaðavelli og Grafarholtsvellli. Keppendur geta valið hvort þeir leiki á mánudegi eða þriðjudegi í hverri leikviku, þannig að hver umferð stendur yfir í tvo daga og er hægt að velja hvorn daginn leikið er. Mótaröðin stendur frá mánudeginum 28. maí og endar þriðjudaginn 31. júlí.
Keppni hefst í næstu viku og verður fyrsta umferð leikin á Korpúlfsstaðavelli. Keppendur ráða hvort þeir leika á mánudaginn 28. maí eða þriðjudaginn 29. maí. Ekki verða teknir frá rástímar heldur skrá keppendur sig í rástíma fyrir viðkomandi leikdag. Tilkynna þarf þátttöku í afgreiðslu og greiða kr. 1.200 í þátttökugjald fyrir hvern hring. Skila þarf skorkorti í kassa undirrituðu af leikmanni og ritara. Ekki er nauðsynlegt að ritarinn sé þátttakandi í mótaröðinni.
Á skorkortinu þarf að koma fram nafn leikmanns, af hvaða teigum er leikið og höggafjöldi á hverri holu.
Fyrirkomulag mótaraðarinnar er punktakeppni þar sem keppendur geta valið sér teiga (hvíta, gula, bláa eða rauða) við hæfi og taka forgjöf samkvæmt völdum teigum. Leikmenn verða að merkja á skorkort af hvaða teigum leikið er. Leikvikur eru 10 talsins og gilda 6 bestu skorin til úrslita á mótaröðinni.
Um aldursflokkakeppni er að ræða og verða veitt verðlaun í fjórum flokkum karla og kvenna, alls átta flokkum. Sama aldursskipting er í báðum flokkum en þeir eru:
- 19-29 ára
- 30-49 ára
- 50-64 ára
- 65 ára og eldri
Punktahæsti einstaklingurinn óháð flokkum verður útnefndur Punktameistari GR.