Sælar allar GR konur og gleðilegt ár,
Nú er starfið okkar að hefjast að nýju og að venju byrjum við á púttinu. Púttmótaröð GR kvenna 2017 hefur göngu sína á Korpunni þriðjudaginn 24.janúar næstkomandi.
Sem fyrr samanstendur mótaröðin af átta púttkvöldum þar sem spilaðir eru tveir hringir hvert kvöld og telur sá betri. Fjórir bestu hringirnir telja til Púttmeistara GR kvenna 2017 sem krýndur verður á veglegu lokakvöldi púttmótaraðarinnar þann 14.mars. Þá verður einnig sú nýjung að verðlaunað verður fyrir besta skor hvert kvöld.
Mótsgjaldið er það sama og í fyrra kr 4000 fyrir öll 8 kvöldin sem greiðist á fyrsta mótskvöldinu. Vinsamlega takið með ykkur pening, við erum ekki með posa.
Húsið opnar kl. 18.00 þá hefst fyrri umferð, Síðari umferð hefst oft um kl.19.30 en konur mæta þegar þeim hentar. Við áætlum þó að loka húsinu um kl. 21:00.
Við hvetjum allar GR konur til að dusta rykið af kylfunum og mæta í Korpuna á þriðjudagskvöldum til að koma sveiflunni í gang fyrir sumarið og efla félagsandann.
Hluti kvennanefndar síðustu ára, þær Anna Lilja og Björk ætla að taka sér pásu frá starfinu í bili og nokkrar ætla að draga úr starfinu vegna anna í á öðrum vettvangi án þess þó að hætta alveg. GR konur þakkar þeim kærlega fyrir óeigingjarnt starf í gegnum árin. Í stað þeirra eru komnar þær Íris Ægisdóttir, Unnur Einarsdóttir og Guðný S Guðlaugsdóttir ásamt Ragnheiði Helgu Gústafsdóttur sem er komin aftur til starfa og hlakkar kvennanefnd GR til að njóta starfskrafta þeirra í ár.
Það er alltaf pláss fyrir traustar hjálparhendur í okkar góða GR kvennastarfi svo hikið ekki við að hafa samband ef þið hafið áhuga á að slást í hópinn og vinna að skemmtilegu og gefandi starfi fyrir GR konur.
Hlökkum til að sjá ykkur í púttinu.
Kvennanefnd GR 2017
Elín Ásgríms, Elín Sveins, Elísabet Jónsd, Eygló, Guðný S Guðlaugsd, Íris Ægis, Ragnheiður Helga, Sandra Margrét og Unnur Einars.