Samanburður á lausung og hreyfanlegri hindrun

Samanburður á lausung og hreyfanlegri hindrun

Trufli lausung eða hreyfanleg hindrun leikmann við að leika golf, hvort sem er að trufla stöðuna, sveifluna eða leiklínuna má leikmaður fjarlægja viðkomandi.  En allir kylfingar verða samt að þekkja reglurnar vel og mismuninn á þessum tveimur skilgreiningum.

Megin munurinn á lausung og hreyfanlegri hrindrun er:

Hreyfist bolti við að fjarlægja:

 • Lausung: 1 högg í víti og leggja boltann aftur á sinn stað
 • Hreyfanlega hindrun: Vítalaust og leggja boltann aftur á sinn stað, sjá mynd hér að neðan.

Bolti liggur á:

 • Lausung: Þar sem boltinn myndi hreyfast við að taka lausungina verður að leika boltanum eins og hann liggur ofaná lausunginni.
 • Hreyfanlegri hindrun: Lyfta bolta og taka hreyfanlegu hindrunina vítalaust, punkturinn beint fyrir neðan þar sem boltinn var er viðmiðunarpunktur og lausnarsvæðið svo 1 kylfulengd, sjá mynd hér að neðan.

Skilgreiningin: lausung (allt úr náttúrunni)

Allir lausir náttúrulegir hlutir, svo sem:

 • Steinar, laust gras, lauf, greinar og stönglar,
 • Dauð dýr og dýraúrgangur,
 • Ormar, skordýr og svipuð dýr sem auðvelt er að fjarlægja og hraukar eða vefir sem þau mynda (svo sem hraukar eftir orma og mauraþúfur), og
 • Kekkir af þjöppuðum jarðvegi (þar á meðal götunartappar).

Slíkir náttúrulegir hlutir teljast ekki lausir ef þeir:

 • Eru fastir eða vaxa,
 • Eru jarðfastir (þ.e. ekki er auðvelt að lyfta þeim), eða
 • Loða við boltann.

Sértilvik:

 • Sandur og laus jarðvegur eru ekki lausung.
 • Dögg, hrím og vatn eru ekki lausung.
 • Snjór og náttúrulegur ís (annar en hrím) eru annaðhvort lausung eða, þegar það er á jörðinni, tímabundið vatn, að vali leikmannsins.
 • Köngulóarvefir eru lausung, jafnvel þótt þeir loði við aðra hluti.

Skilgreiningin: hreyfanleg hindrun (manngerðir hlutir, nema hluti vallar og vallarmörk)

 • Hindrun sem hægt er að færa með hóflegri fyrirhöfn og án þess að skemma hindrunina eða völlinn.
 • Ef hluti óhreyfanlegrar hindrunar eða hluta vallar (svo sem hlið, hurð eða hluti af föstum kapli) uppfyllir þessi tvö viðmið, er litið á þann hluta sem hreyfanlega hindrun.
 • Þó á þetta ekki við ef hreyfanlegum hluta óhreyfanlegrar hindrunar eða hluta vallar er ekki ætlað að hreyfast (svo sem laus steinn í grjótgarði).
 • Jafnvel þótt hindrun sé hreyfanleg má nefndin skilgreina hana sem óhreyfanlega hindrun.


Þær hreyfanlegu hindranir sem Golfklúbbur Reykjavíkur skilgreinir sem óhreyfanlegar hindranir í sínum staðarreglum:

 • Fjarlægðarhælar, Vökvunarkerfi, Lok á ræsum, Önnur skilti, Bekkir og Ruslafötur
 • Vatnsbrunnur og Vatnskrani við 10/17. Brautina í Grafarholtinu.
 • Í þessum tilfellum sem hreyfanlegar hindranir má færa boltann vítalaust um eina kylfulengd frá hindruninni ef hún truflar stöðu eða sveiflu, en athugið ekki má færa boltann ef hún truflar aðeins leiklínuna

Langar að taka það sérstaklega fram að gulir og rauðir hælar eru hreyfanlegar hindranir sem má fjarlægja (muna að laga eftir sig) hvort sem boltinn er í vítasvæðinu eða utan þess.  Ef staurarnir eru jarðfastir og ekki hægt að fjarlægja þá, þá eru þeir óhreyfanlegar hindranir og þá er lausn frá þeim ef boltinn er utan vítasvæðisins, en engin lausn sé boltinn innan vítasvæðisins.  Hinsvegar eru hvítir hælar og aðrar merkingar sem marka „out of bounds“ alltaf hluti vallar og ekki má fjarlægja þær og engin lausn er fengin frá þeim. 

ATH. Fjarlægja má bæði lausung og hreyfanlega hindrun úr lausnarsvæði áður en bolti er látinn falla.

Þeir sem vilja kynna sér þetta betur geta kíkt á reglu 15:
https://www.randa.org/is-is/rog/2019/rules/the-rules-of-golf/rule-15

 

Til baka í yfirlit