Sierra Golf Resort - októbertilboð til félagsmanna

Sierra Golf Resort - októbertilboð til félagsmanna

Sierra Golf resort býður félagsmönnum Golfklúbbs Reykjavíkur áframhaldandi kjör á „Stay & Play“ hjá sér í október en félagsmönnum stóð þetta frábæra tilboð einnig til boða fyrr í sumar og hafa margir hverjir nýtt sér það nú þegar.

Golfsvæðið, sem er hið glæsilegasta, er staðsett í ca. 45 mínútna akstursfjarlægð frá alþjóðaflugvellinum í Gdansk og býður upp á 18 holu golfvöll, völlurinn hefur hýst mörg stór og alþjóðleg mót. Á svæðinu er einnig að finna frábært æfingasvæði, vippflatir, glompur, púttflatir og "driving range" og fá allir gestir fá æfingabolta endurgjaldslaust. Á svæðinu er einnig lítill tennisvöllur (paddle tennis) og hjólaleiga. Í nágrenninu er einnig mikið af fallegum hjóla- og gönguleiðum og því tilvalið til að njóta annarar útivistar samhliða fyrir þá sem vilja. Klúbbhúsið er einkar glæsilegt, þar er að finna flottan veitingastað, bar, setustofa, spilaherbergi, búningsklefa og fleira sem góðu klúbbhúsi sæmir. Boðið er upp á morgunverð fyrir gesti sem borinn er fram í klúbbhúsi. 

Sérkjör sem Sierra Golf býður félagsmönnum okkar upp á innihalda:

 • Akstur til og frá flugvelli (sótt í flug og skutlað aftur fyrir heimför)
 • Gisting í glæsilegum íbúðum
 • Morgunverður
 • Ótakmarkað golf á einum flottasta golfvelli Póllands
 • Ótakmarkaður aðgangur að æfingasvæði
 • Ótakmarkaður fjöldi æfingabolta á æfingasvæði
 • Hátíðarkvöldverður (gestir velja hvaða kvöld þeir fá kvöldverðinn, yfirleitt fyrsta eða síðasta kvöldið)
 • Samlokur, vatn og bjór í ísskáp íbúðar við fyrsta kvöldið

Hægt er að velja um 7, 9 eða 14 daga og eru verð til félagsmanna þessi:

 • Stay & Play 7 – €550 pr. mann (76.076 kr. miðað við almennt gengi 28.8.2019)
 • Stay & Play 9 – €679 pr. mann (93.919 kr. miðað við almennt gengi 28.8.2019)
 • Stay & Play 14 – €935 pr. mann (129.329 kr. miðað við almennt gengi 28.8.2019)

Kamila Pieper er tengiliður okkar hjá Sierra Golf, hún veitir frekari upplýsingar og tekur á móti bókunum í gegnum netfangið kamila.pieper@sierragolf.pl 

Flug
Wizz air eru með beint flug til Gdansk. Flogið er út þrisvar í viku, á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum. Flogið er heim á sömu dögum. Flugið tekur ca. 3 og 1/2 klukkustund og hefur Wizz air verið flugfélag sem þekkt er fyrir ódýr fargjöld og prýðilega þjónustu. 

Áhugaverðir staðir í kringum Sierra
Næsta borg við Sierra svæðið er Wejherowo en þar búa um 50.000 manns. Í Wejherowo er fallegur gamall miðbær með fallegum húsum, veitingastöðum og verslunum. Leigubílaferð í Wejherowo kostar ekki nema rúmar 1.000 kr. en þar er t.d. hægt að versla inn og fylla ískápinn þar sem allar íbúðir á Sierrasvæðinu eru með fullbúnu eldhúsi. 

Þá er stutt í hina stórglæsilegu borg Gdansk, svæðið í kringum Gdansk er kallað Tricity eða Borgirnar þrjár og samanstendur af borgunum Gdansk, Gdynia og Sopot sem allar liggja mjög þétt saman. Borgirnar eru hver annarri fallegri, Sopot er stundum kölluð Hollywood Póllands því þar eru dýr og fín hótel, fallegar göngugötur og mjög fallegar bryggjur með snekkjum og eðal skútum. Gdansk er elsta og frægasta borgin af þessum þremur en þar er mikil saga, gamlar og fallegar byggingar,  kirkjurnar í Gdansk eru stórfenglegar og skipta tugum í miðbænum. Þá er hægt að kaupa ferðir um miðbæinn með leiðsögufólki sem fræðir mann um söguna eða maður getur valið að rölta sjálfur og njóta. Í Gdansk eru einnig margar skemmtilegar verslanir og huggulegir veitingastaðir.

Það þarf varla að taka það fram að verðlag í Póllandi er mun lægra en Íslendingar hafa vanist og ættu því allir að geta gert sér glaðan dag á meðan á heimsókn stendur.

Tannlæknaþjónusta í Póllandi
Þeir sem eru áhugasamir um tannlæknaþjónustu erlendis geta kynnt sér upplýsingar um það í meðfylgjandi skjali en Sierra Golf er í samstarfi við tannlæknastofu á staðnum: Tannlæknaþjónusta í samstarfi við Sierra Golf Resort.pdf

Við vonum að félagsmenn kynni sér þennan frábæra kost hjá Sierra Golf resort og nýti þau sérkjör sem boðið er upp á.

Með góðri golfkveðju inn í haustið,
Golfklúbbur Reykjavíkur

 

Til baka í yfirlit