Sigurður Pétursson, f. 29. júní 1960 – d. 19. apríl 2021

Sigurður Pétursson,  f. 29. júní 1960 – d. 19. apríl 2021

Sigurður Pétursson PGA golfkennari, afrekskylfingur og GR-ingur lést síðastliðinn mánudag, 19. apríl, aðeins sextugur að aldri. Sigurður var staddur á eyjunni La Gomera þegar hann lést, en hann hafði starfað sem fararstjóri og golfkennari undanfarin ár.

Sigurður var félagsmönnum GR og öðrum kylfingum vel kunnur, en hann varð klúbbmeistari GR tvisvar sinnum, árin 1981 og 1983. Hann varð einnig þrefaldur Íslandsmeistari í golfi árin 1982, 1984 og 1985, Íslandsmeistari í holukeppni 1981, 1985 og 1989, ásamt því að vera valinn íþróttamaður Reykjavíkur árið 1985. Hann varð fyrsti Íslendingur sem ráðinn var sem aðalkennari hjá GR 1991. Hann lauk golfkennara námi hjá sænska PGA 1994.

Sigurður eða Siggi Pé eins og hann var ávallt kallaður, varð fyrstur íslenskra kylfinga til að komast í lokaúrtökumót fyrir Evrópumótaröðina. Golfsveitir GR undir liðsstjórn Sigga áttu góðu gengi að fagna og urðu Íslandsmeistaratitlarnir nokkrir. Hann var jafnframt þjálfari íslenska landsliðsins þegar það varð Norðurlandameistari í Grafarholti 1992. Á síðustu árum keppti Siggi með öldungaliði klúbbsins, landsliði lögreglumanna ásamt því að sinna liðssstjórn sveita í Íslandsmóti golfklúbba.

Sigurður hóf störf sem lögreglumaður 1986, út­skrifaðist úr Lög­reglu­skól­an­um 1988 og starfaði sem lög­reglumaður til dán­ar­dags, með hléi árin 1991 til '97 er hann starfaði sem golfkennari hjá GR. Ásamt golfiðkun og áhuga á golfíþróttinni var hann einnig mikill hesta- og fótboltaáhugamaður.

Fallinn er frá einstakur maður sem öllum líkaði vel við, Sigga Pé verður sárt saknað utan sem innan vallar en minningin um góðan dreng lifir.

Eig­in­kona Sig­urðar er Guðrún Ólafs­dótt­ir og kynnt­ust þau á Grafar­holtsvelli 1978. Sig­urður læt­ur eft­ir sig fimm börn, þau Pét­ur Óskar, Hann­es Frey, Hönnu Lilju, Ragn­ar og Önnu Mar­gréti. Guðrún átti fyr­ir Ólaf, sem bú­sett­ur er í Svíþjóð.

Golfklúbbur Reykjavíkur sendir fjölskyldu og aðstandendum innilegar samúðarkveðjur

Til baka í yfirlit