Sigurður Pétursson - minningarorð frá formanni

Sigurður Pétursson - minningarorð frá formanni

Hún var þung fréttin sem barst okkur GR-ingum nýlega. Sigurður Pétursson, Siggi Pé, er látinn. Ég hygg að fáir í golfhreyfingunni hafi verið jafn vel kynntir og Siggi Pé. Hann var goðsögn í íslensku golfi. Hann varð Íslandsmeistari 1982, 1984 og 1985. Þá varð hann klúbbmeistari Golfklúbbs Reykjavíkur 1981 og 1983 og á aukinheldur fjöldan allan af öðrum afrekum í golfíþróttinni.  

Titlarnir fjölmörgu voru auðvitað skýr ástæða þess hve vel hann var kynntur í golfhreyfingunni, en alls ekki sú eina. Sem golfkennari, bar hann öðrum fremur ábyrgð á fyrsta vorinu í íslensku golfi. Hann ól upp marga af okkar bestu leikmönnum og kenndi þeim allt um íþróttina fögru. Golfbúð Sigga Pé í Grafarholtinu er líka ofarlega í minningunni.

Í seinni tíð var það svo fararstjórn og golfkennsla á erlendis sem kynnti Sigga Pé enn frekar fyrir kylfingum. Á Spáni unni hann sér vel og þar var hann hrókur alls fagnaðar. Allir töluðu vel um Sigga Pé sem komu heim úr þeim ferðum.  

Fyrir hönd Golfklúbbs Reykjavíkur vil ég votta eiginkonu hans, börnum og aðstandendum öllum mína dýpstu samúð. Megi minning Sigurðar Péturssonar lifa og hann hvíla í friði.

Björn Víglundsson
Formaður

Til baka í yfirlit