Það styttist í golfsumarið og framundan verður nóg um að vera í mótahaldi fyrir félagsmenn. Fjölmörg mót hafa fest sig í sessi og verða áfram til staðar. Mercedes-Benz bikarinn - holukeppni GR verður áfram á sínum stað og eins liðakeppnin okkar, þar sem keppt er um Eimskipsbikarinn. Eins verður framhald á Barna- og unglingamótaröðinni og Sumarmótaröð kvenna, sem leikin verður annan hvern miðvikudag.
Hjóna- og parakeppnin hefur notið mikilla vinsælda í gegnum árin og er orðin ómissandi þáttur í mótahaldi ásamt Haustmóti GR kvenna og Bændaglímunni.
Ákveðið hefur verið að bæta nokkrum nýjum mótum við og endurvekja önnur en meðal þeirra er Niðjamótið sem er sambærilegt mót og Hjóna- og parakeppnin, þar sameinast ættliðir í stað hjóna og leikur eldri keppandinn með afkomanda, barni eða barnabarni.
Nýjungar
Ætlunin er að fara af stað með nokkur mismunandi 9 holu mót, sem öll verða leikin á Korpunni. Fyrst má þar nefna Jónsmessumót þar sem ræst verður samtímis út á öllum 27 holunum vallarins og mun hver leikmaður leika eina af þremur lykkjum vallarins.
Vinamótið er nýjung sem verður einnig 9 holu mót, leikið verður tveggja manna Texas scramble þar sem annar keppandinn er GR-ingur en hinn gestur hans úr öðrum klúbbi. Ræst verður út á öllum teigum samtímis og verða tilboð á veitingum í klúbbhúsi að móti loknu.
Föstudagsmót verða önnur nýjung í móthaldi sumarsins þar sem leiknar verða 9 holur á Korpunni að jafnaði annan hvern föstudag. Lítil umgjörð verður um þessi mót, keppendur bóka rástíma milli klukkan 15-20 á leikdögum og leikið verður mismunandi fyrirkomulag í hverju móti. Leikfyrirkomulag föstudagsmóta verður nánar kynnt félagsmönnum þegar nær dregur.
Athugið að allar upplýsingar um mótahald eru birtar með fyrirvara um breytingar.
Við hlökkum til golfsumarsins 2019!
Mótanefnd