Skilaboð frá yfirdómara klúbbsins

Skilaboð frá yfirdómara klúbbsins

Á Korpunni eru ennþá nokkrir dagar í að flatirnar verði eins og þær eru bestar, þrátt fyrir það ætlum við að halda okkur við fyrra auglýst plan um að hætta með allar færslur á Korpunni frá og með 1. júli. Það á bæði við flatir og brautir og spilast Korpan því algjörlega með færslulausu golfi, á það við um allar 27 holurnar.

Í Grafarholtinu eru flatirnar orðnar mjög góðar og því verða engar færslur á flötum leyfðar í Grafarholtinu frá 1. júlí eins og áður hefur verið auglýst.  Hinsvegar eru brautirnar í Grafarholtinu þess eðlis að þar verða að vera leyfðar færslur um eina kylfulengd eins og kemur fram í staðarreglum.

Það er ekki sjálfgefið að kylfingar eigi rétt á hinum fullkomna golfvelli hverju sinni, R&A í Skotlandi hefur verið með átak í því að fækka óþarfa færslum (vorreglum) eins mikið og hægt er og spila frekar vellina eins náttúrulega og þeir eru.  Vallarstarfsmenn GR eru að vinna hörðum höndum að því að gera vellina sem besta og í sumar hefur verið mikið áták í því að vinna flatirnar með framtíðina í huga til að tryggja að þær komi sem best undan vetri um ókomin ár.

Nú sem endra nær er mjög mikilvægt að við kylfingar göngum vel um vellina okkar, það er mikilvægt að laga kylfuför á brautum og boltaför á flötum, sérstaklega í ljósi þess að nú eru engar færslur leyfðar og því mikilvægt að ganga frá vellinum eins og við viljum koma að honum.

Margar kvartanir hafa borist varðandi frágang í glompum, mjög mikilvægt er að allir kylfingar raki vel eftir sig þegar búið er að slá eða athafna sig í glompum.  Það er mjög hvimleitt fyrir kylfinga að lenda í glompum og vera kannski í miðju djúpu skófari.  Einnig hafa komið fyrirspurnir hvernig á að raka glompurnar, það er engin ein regla til um það, en best er að dreifa og slétta sandinum sem best  þannig að glompan er eins og þið mynduð vilja koma að henni.

Meðfylgjandi mynd barst frá félagsmanni en þetta er einmitt gott dæmi um það hvernig við viljum EKKI koma að vellinum okkar. 

Góðir vellir eru ábyrgð okkar allra.

Aron Hauksson, 
Yfirdómari GR 

Til baka í yfirlit