Team Iceland keppir á Spirit International áhugamannamótinu sem hefst í dag

Team Iceland keppir á Spirit International áhugamannamótinu sem hefst í dag

Spirit International áhugamannamótið sem fer fram í Bandaríkjunum hefst í dag og stendur yfir fram á laugardag. Fjórir íslenskir keppendur eru meðal þátttakenda – Dagbjartur Sigurbrandsson og Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Hulda Clara Gestsdóttir og Hlynur Bergsson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar.

Tómas Aðalsteinsson er liðsstjóri íslenska liðsins en hann er þjálfari hjá bandarísku háskólaliði. Íslensku keppendurnir eru allir í námi í bandarískum háskólum og leika þar keppnisgolf með sínum skólaliðum. Um er ræða einstaklings- og liðakeppni þar sem að 20 þjóðir taka þátt. Þær þjóðir sem taka þátt eru Argentína, Belgía, Kanada, Taiwan, Kólumbía, Danmörk, England, Finnland, Frakkland, Ísland, Írland, Ítalía, Mexíkó, Noregur, Skotland, Suður-Afríka, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Bandaríkin.

Kynningu á íslenska liðinu má sjá hér

Leikið á Whispering Pines Golf Club í Texas sem er í 55. sæti yfir bestu golfvelli heims að mati Golf Digest.

Mótið í ár er það 10. í röðinni en keppendur sem hafa tekið þátt á þessu móti í gegnum tíðina hafa sigrað á samtals 650 atvinnumótum, þar af 25 risamótum, 16 mótum á PGA mótaröðinni, 25 mótum á Evrópumótaröð karla, 23 mótum á LPGA mótaröðinni og 21 móti á LET Evrópumótaröðinni.

Keppt er í höggleik og verða leiknar 54 holur, keppt er í liðakeppni karla og kvenna og einstaklingskeppni karla og kvenna. Einnig er keppt í sameiginlegri alþjóðlegri liðakeppni og eru verðlaun veitt fyrir þrjú efstu sætin í öllum keppnisflokkum.

Hægt er að fylgjast með skori og stöðu í mótinu hér

Við óskum íslenska liðinu góðs gengis á móti helgarinnar!

 

Til baka í yfirlit