Tilkynning frá stjórn GR - ákvörðun stjórnar GR í rástímamáli

Tilkynning frá stjórn GR - ákvörðun stjórnar GR í rástímamáli

Fyrir nokkru fluttu fjölmiðlar fréttir um að svindlað hafi verið á reglum um rástímaskráningu í Golfbox kerfinu, þar sem menn hefðu skapað sér forgang í kerfinu með notkun tölvuforrits, svonefndrar skriftu.  Eftir því sem fram hefur komið gengur forritið út á að skrá vélrænt rástíma um leið og opnað er fyrir skráningu í Golfbox kerfinu.  Fram kom að um hefði verið að ræða golfhópinn Stulla.

Stjórn GR vísaði málinu til aganefndar kúbbsins, sem tilkynnti stjórn sína niðurstöðu í síðastliðnum mánuði.  Stjórn tók málið fyrir þar sem eftirfarandi var bókað:     

“Stjórn hefur borist niðurstaða aganefndar.  Stjórn hefur einnig borist bréf frá Golfklúbbnum Stullum, þar sem stjórn GR og félagsmenn eru beðnir afsökunar á framgöngu sinni og framferði við skráningu rástíma á síðastliðnu golfsumri, jafnframt því að stjórn GR er fullvissuð um að skriftum eða sambærilegum aðferðum verði ekki beitt af hálfu hópsins hér eftir.  Einnig hefur komið fram að öðrum í golfhópnum heldur en Steingrími Gaut Péturssyni var ókunnugt um umræddan skráningarmáta. 

Í niðurstöðu aganefndar kemur fram að nefndin telji rétt að sá eða þeir, sem gengist hafa við því að hafa hlutast til um skráningu með skriftum, fái skráningarbann í byrjun næsta tímabils. Þá telji nefndin eðlilegt að aðrir aðilar, þ.e. þeir sem skráðir voru í rástíma með umræddum hætti, vitandi eða óafvitandi, verði brýndir um mikilvægi þess að gefa ekki upp notendanöfn og/eða lykilorð.  Í niðurstöðu nefndarinnar kemur einnig fram að hún telji brýnt að settar verði skýrari reglur um skráningu rástíma, og viðurlög við brotum.

Ákvörðun stjórnar:

Í samræmi við niðurstöðu aganefndar er ákveðið að Steingrímur Gautur Pétursson sæti skráningarbanni, sem felur í sér að hann hafi ekki aðgang að golfvöllum GR.  Skráningarbannið tekur gildi sama dag og opnað verður fyrir skráningu á 18 holum á Korpúlfsstaðavelli eða Grafarholtsvelli, eftir því hvor völlurinn opnar fyrr, á golftímabilinu 2022, og skal vara í einn mánuð.    

Stjórn GR tekur framkomna afsökunarbeiðni gilda.  Að teknu tilliti til hennar og annars þess sem fram er komið er málinu lokið með þessum hætti.”

Stjórn tekur fram að hún var meðvituð um þá skoðun margra félagsmanna að beita ætti hörðum  viðurlögum, jafnvel brottvísunum.  Stjórn taldi það engan veginn réttlætanlegt í ljósi réttmætrar ábendingar aganefndar um að reglur klúbbsins um rástímaskráningu hafi verið fábrotnar og hafi ekki haft að geyma slíkar viðurlagaheimildir, auk þess sem fyrir liggur að þjónustuskilmálar Golfbox voru ekki gerðir aðgengilegir fyrr en eftir að umrætt mál kom upp.  Hvað varðar aðra meðlimi Stulla heldur en þann sem sæta skal skráningarbanni, þá höfðu þeir ekki skráð sig sjálfir og hafa lýst því að þeim hafi ekki verið kunnugt um skráningaraðferðina.  Þeir hafa beðist einlæglega afsökunar. 

Skýrir þetta ákvörðun stjórnar.   Að síðustu skal tekið fram að mikilvægast er horfa fram á veginn og sjá til þess að atvik eins og þetta endurtaki sig ekki næsta sumar.  Félagsmenn sitji við sama borð við skráningu.  GSÍ vinnur að tæknilegri lausn á málinu með golfbox, enda segir sig sjálft að það gengur ekki að unnt sé að skapa sér forgang í raun með tæknibúnaði sem kerfið gerir ekki ráð fyrir.  Málið er í algerum forgangi.  Þá mun stjórn GR skerpa á reglum um skráningu á völlum GR, þ.m.t. viðurlagaheimildum, í ljósi þessarar reynslu.

Stjórn GR      

Til baka í yfirlit