Uppskeruhátíð barna og unglinga – Icelandair Cargo mótaröðin

Uppskeruhátíð barna og unglinga – Icelandair Cargo mótaröðin

Miðvikudaginn 18. september síðastliðinn kom yngri kynslóð kylfinga úr Golfklúbbi Reykjavíkur saman í golfskálanum í Grafarholti ásamt foreldrum og þjálfurum til þess að kveðja tímabilið og gera upp árangur sumarsins. Fullt var út úr húsi og gríðarlega góð stemning meðal viðstaddra.

Veitt voru verðlaun fyrir árangur í Icelandair Cargo mótaröð barna og unglinga en alls voru 10 mót leikin í sumar á Korpúlfsstöðum þar sem þátttakan var frábær. Einnig voru veitt verðlaun fyrir einstaklingsárangur á mótaröðum GSÍ þar sem ungir kylfingar úr GR unnu fjölda titla á liðnu keppnistímabili.

Að verðlaunaafhendingu lokinni var boðið upp á pizzu og gos við mikinn fögnuð viðstaddra. Frosti B. Eiðsson, ljósmyndari var á staðnum og má sjá myndir frá kvöldinu á vef hans golfmyndir.is hér

Golfklúbbur Reykjavíkur vill nýta tækifærið og  þakka Icelandair Cargo fyrir dyggan stuðning við mótahald yngstu kylfinga klúbbsins á undanförnum árum.

Við þökkum öllum þeim iðkendum sem sóttu æfingar og golfnámskeið í sumar fyrir skemmtilegt sumar og vonumst til þess að sjá ykkur sem flest þegar æfingar hefjast aftur af krafti í nóvember.

Kveðja,
Þjálfarar

Til baka í yfirlit