Úrval Útsýn - Freyja Önundardóttir krýnd Sumarmeistari GR kvenna 2018

Úrval Útsýn - Freyja Önundardóttir krýnd Sumarmeistari GR kvenna 2018

Sumarmótaröð GR kvenna 2018 lauk á miðvikudag með sigri Freyju Önundardóttur sem var krýnd Sumarmeistari GR kvenna. Freyja lauk þeim fjórum hringjum sem til þurfti á mótinu á samtals 151 punktum.  Síðasti hringurinn í mótaröðinni fór fram á Korpunni og var Sjórinn/Áin leikin í blíðskaparveðri. Að móti loknu var efnt til verðlaunahófs á efri hæðinni í Korpu þar sem GR konur samglöddust þeim okkar sem sköruðu framúr í mótaröðinni í sumar og gæddu sér um leið á veitingum frá Hödda og co. 

Mjög mjótt var á munum og er óhætt að segja að gustað hafi um toppsætin í síðustu mótunum. Freyja átti góðan endasprett og skaust í efsta sætið á síðustu stundu. Næst henni kom Ásta Björk Styrmisdóttir sem líka átti frábæran lokahring, spilaði á 42 punktum og lauk mótinu á 150 punktum, aðeins einum punkti frá toppsætinu. Jafnar í 3.-5.sæti á 147 punktum voru þær Magdalena M Kjartansdóttir, Ljósbrá Baldursdóttir og Dagný Erla Gunnarsdóttir. 

Verðlaun voru einnig veitt fyrir sigurvegara hvers mánaðar sem mótið varði og urðu mánaðarmeistarar þessar:

 • Maímeistari 2018 er Dagný Erla Gunnarsdóttir (42 punktar, Sjórinn/Áin)
 • Júnímeistari 2018 er Ólöf Inga Guðbjörnsdóttir (41 punktar (22 s) í Grafarholtinu 27.júní)
 • Júlímeistari 2018 er Aðalheiður Anna Guðmundsdóttir (40 punktar, Sjórinn/Landið 25.júlí)
 • Ágústmeistari 2018 er Magdalena M Kjartansdóttir (44 punktar, Sjórinn/Áin 22.ágúst)

Mælingar voru að jafnaði á tveimur brautum í hverju móti og næstar holu í mótunum í sumar urðu:

Korpan 30.maí

 • 6 - Laufey Jörgensdóttir 0.90
 • 13 - Þóra Helgadóttir 2.69 

Grafarholt 13.júní

 • 2 - Sandra Margrét Björgvinsdóttir 3.52
 • 11 - Rakel Þorsteinsdóttir 2.68

Korpan 27.júní

 • 13 - Guðrún Másdóttir 1.08
 • 25 - Freyja Önundardóttir 7.68 

Grafarholt 4.júlí

 • 6 - Guðrún Gunnarsdóttir 2.13
 • 17 - engin 

Korpan 25.júlí

 • 6 - Marólína Erlendsdóttir 2.45
 • 25 - Erna Thorsteinsdóttir 1.05


Grafarholt 8.ágúst

 • 2 - Ruth Einarsdóttir 0.63
 • 6 - Guðrún Óskarsdóttir 1.48

Korpan 22.ágúst

 • 9 - Jóhanna Harpa Árnadóttir 0.94
 • 13 - J.Hafdís Guðmundsdóttir 2.03

Það er ekki hægt að segja að sumarblíðan hafi leikið við kylfinga á suður og vesturhorni landsins undanfarna mánuði en það virðist ekki hafa skipt máli fyrir GR konur. Frábær þátttaka var í mótaröðinni, flott skor og snilldartilþrif mátti oft sjá á vellinum.  Alls tóku um 170 kylfingar þátt í keppninni um Úrval Útsýn sumarmeistara GR kvenna en að meðaltali mættu ríflega  90 konur í hvert mót. Mótið var punktakeppni og sjö hringir spilaðir og töldu fjórir bestu þeirra til vinnings.

Fyrirkomulagið var líkt og á síðustu ár, konur skráðu sig í rástíma fyrir hvert mót frá morgni til kvölds eða á meðan birtan leyfði.

Í ár var samstarf á meðal GR kvenna og Ferðaskrifstofunnar Úrval Útsýn þar sem ÚÚ lagði til ferðavinning til El Plantio á Spáni. Um er að ræða vikugolfferð, sérstaklega ætlaða GR konum, þar sem allt er innifalið, ótakmarkað golf, gisting, matur og drykkir að andvirði um 200.000 kr. Þá lagði ÚÚ einnig til vinninga til mánaðameistara okkar og svo var rúsína í pylsuendanum þegar dregið var úr skorkortum gjafabréf upp á 70.000 kr inneign í ferð til El Plantio.

GR konur þakka Úrval Útsýn sérstaklega ánægjulegt samstarf. 

GR konur krýna tvo meistara á hverju ári. Púttmeistari GR kvenna 2018 er Lára Eymundsdóttir og nú í fimmta sinn er sumarmeistari GR kvenna krýndur, Freyja Önundardóttir.

GR konur óskar nýkrýndum Úrval Útsýn sumarmeistara GR kvenna 2018 og öðrum vinningshöfum innilega til hamingju með árangurinn.

Næsti viðburður á meðal GR kvenna er Haustmótið eða uppskeruhátíðin okkar en það mót fer fram á Korpunni sunnudaginn 9.september nk. Skráning fer fram á golf.is sem verður auglýst nánar  síðar.

Hér má sjá heildarstöðuna að sjö mótum loknum í Sumarmótaröð GR kvenna 2018 og úrslit úr síðasta mótinu sem fram fór í Korpunni 22.ágúst sl. uu_sumarmot18_lokastada.pdf 

Kærar þakkir fyrir skemmtilega mótaröð og ánægjulega samveru í sumar,
Kvennanefndin

 

Til baka í yfirlit