Úrval Útsýn styður GR konur

Úrval Útsýn styður GR konur

GR konur og Ferðaskrifstofan Úrval Útsýn hafa tekið höndum saman um að efla og styrkja sumarmótaröð GR kvenna á þessu ári, en það felur m.a. í sér að Úrval Útsýn mun útvega einstaklega glæsilega vinninga fyrir þær konur sem skara fram úr í keppnishaldinu í sumar. Aðalvinningurinn sem Sumarmeistari GR kvenna fær í sumarlok er vikugolfferð til El Plantio við Alicante á Spáni þar sem allt er innifalið, ótakmarkað golf, gisting, matur og innlendir drykkir en ferðin er að andvirði rúmlega 200.000 kr. Lagt verður í hann síðdegis þann 5.okt og komið heim að kvöldi 12.október.
Þá mun Úrval Útsýn útvega aðra áhugaverða vinninga fyrir þær konur sem skila bestum árangri í hverjum mánuði á meðan á mótaröðinni stendur en þar verður um gjafabréf upp í kostnað við ofangreinda ferð að ræða.

Rétt er að taka fram að golfferðin til El Plantio í haust stendur öllum GR konum til boða, enda verður hún sérstaklega skipulögð fyrir hópinn. Ástæða er til að hvetja GR konur til að hafa nú þegar samband við Þórð Rafn Gissurarson hjá ÚÚ sem verður GR konum innan handar við stjórn ferðarinnar.

Þegar er ljóst að mikill metnaður verður lagður í alla umgjörð golfferðarinnar til El Plantio og verður engu til sparað hvað varðar gistingu, uppihald og vallaraðstæður en kostnaðurinn er engu að síður mjög sanngjarn og undir því pari sem vanir golfferðalangar þekkja.

Nánari upplýsingar um ferðina, dagskrá og kostnað má sjá hér en allar frekari upplýsingar veitir Þórður Rafn Gissurarson í síma 5854102 og í netfanginu thordur@uu.is

Samstaðan í hópi GR kvenna á síðustu árum hefur verið slík að engin ástæða er til að ætla annað en að þessi golfferð á einn fallegasta golfvöll Spánar verði ævintýri líkust og öllum eftirminnileg um ókomin ár.

Fjölmennum stelpur og slúttum sumrinu saman með stæl

Kvennanefndin

Til baka í yfirlit