Úrval Útsýn – þriðja umferð í Sumarmótaröð GR kvenna leikin á Korpu í dag

Úrval Útsýn – þriðja umferð í Sumarmótaröð GR kvenna leikin á Korpu í dag

Í dag er verið að leika þriðju umferð í Úrval Útsýn Sumarmótaröð GR kvenna, leikið er Landið/Áin á Korpunni. Á miðvikudag í næstu viku verður svo fjórða umferð leikin á Grafarholtsvelli.

Sumarmótaröðin er punktakeppni með hámarksforgjöf 36. Spilaðir eru 7 hringir til skiptis á Korpu og í Grafarholti og telja 4 bestu hringirnir til Úrval Útsýn sumarmeistara GR kvenna 2018. Til mikils er að vinna því aðalverðlaunin eru viku golfferð á El Plantio við Alicante á Spáni í byrjun október þar sem allt er innifalið, ótakmarkað golf, gisting, matur og innlendir drykkir. Ferðin er sérstaklega skipulögð fyrir GR konur. Aðstæður á El Plantio eru allar hinar bestu, hvort heldur litið er til golfiðkunar eða gistingar og alls viðurgjörnings.   Hægt er að skrá sig í kennslu og þá verður sérstök mótaskrá fyrir GR konur. Fararstjórn er í höndum Þórðar Rafns Gissurarsonar, GRings og afrekskylfings. Við hvetjum GR konur til að fjölmenna í ferðina sem farin verður 5. - 12.október nk. og slútta þannig saman enn einu golfsumrinu okkar.  

Skráningar í mótið fram á golf.is og er skráð eins og um venjulega rástíma sé að ræða en hægt er að spila frá því völlur opnar og fram á kvöld og skilið undirrituðu skorkorti í afgreiðsluna.

Þátttökugjald er kr. 3000 fyrir alla 7 hringina og greiðist í afgreiðslunni eða er hægt að leggja inn á reikning. Fyrir þær sem ekki hafa þegar greitt þátttökugjald eru vinsamlegast beðnar um að ganga frá því með fyrrgreindum hætti.

Að leik loknum er skorkorti skilað inn í kassa merktum GR konum en skorið er slegið inn til forgjafar daginn eftir. Munið að merkja skorkort með nafni og kennitölu áður en korti er skilað.

Hörður í veitingasölu Korpunnar býður upp á gómsætar veitingar í klúbbhúsi Korpunnar svo full ástæða er til að setjast niður að leik loknum, hitta aðrar skvísur, spjalla og spá í afrek dagsins.  

Við minnum á að fjórða mótið verður haldið miðvikudaginn 4.júlí í Grafarholti vegna Meistaramóts GR sem haldið verður vikuna á eftir, skráning í rástíma fyrir þann dag hefst á sunnudag kl. 08:00 fyrir þær sem vilja spila fyrripart dags og kl. 08:00 á mánudag fyrir þær sem vilja spila eftir kl. 15:00.

Við minnum konur líka á að skráning er hafin í Meistaramótið GR en það fer fram dagana 8. – 14. júlí og er leikið á báðum völlum klúbbsins, hvetjum ykkur allar til að taka þátt. 

Hlökkum til að sjá ykkur sprækar á vellinum.

Kær kveðja,
Kvennanefnd GR

Til baka í yfirlit