Vetrarvinna á Korpu - opnunartímar

Vetrarvinna á Korpu - opnunartímar

Ágætu Kylfingar,

Þessi október mánuður hefur verið kylfingum góður og er kærkomin framlenging á annars frábæru golfsumri. Nú er næturfrostið farið að gera vart við sig og miðað við árstíma þá má reikna með að framhald verði á því næstu daga, vikur og mánuði. Það eru sannarlega forréttindi að fá að spila golf fram í október þó að styttist í að vellirnir verði komnir í vetrarbúninginn.

Við munum að sjálfsögðu reyna að halda Korpunni opinni eins lengi og kostur er en beita tímabundnum lokunum þegar næturfrost hefur verið. Helsta ástæða þess er að á Korpunni skyggir Úlfarsfellið á sólina þegar að hún er að koma upp annarsstaðar í Reykjavík og þess vegna hafa lokanir verið helst til langar að sumra mati. Ástæða þess að við lokum völlunum þegar það fer að frysta er sú að þegar stigið er á grasið eftir næturfrost þá einfaldlega brotnar það því grasið eins og við mennirnir, er að mestum hluta vatn. Ef ekki er varlega farið verður erfiðara að ná því af stað í vor og viljum við sem fyrr opna um leið og hægt er.

Rástímar á golf.is hafa verið fráteknir til kl. 12:00 næstu daga en ef ljóst þykir að völlur opni fyrr en til segir þá verða rástímar losaðir samkvæmt því og geta kylfingar þannig fylgst með opnunartímum.

Til þess að verja völlinn okkar sem best vil ég biðja þá kylfinga sem leika golf á Korpunni þá daga sem við eigum eftir að huga sérstaklega að kylfu og boltaförum. Boltaförin vil ég taka sérstaklega fram því nú loka boltaförin sér ekki neitt og verða miklu meira áberandi en í venjulegu sumarspili.

Vallarstarfsmenn hafa hafið vetrarvinnuna sem suma daga fer fram á stöðum sem eru í venjulegri leiklínu. Við munum færa til teigmerki meðan á vinnu stendur en færa merkin svo til baka að vinnudegi loknum.

Í næstu viku er stefnt að því að byrja að gata flatir. Á meðan flöt er götuð munum við setja flaggið útaf flötinni en ekki gera holu einungis setja flaggið í þar til gerðan hólk. Almenna reglan er að allt innan við tvo metra er gefið en það er ykkur að sjálsögðu í sjálfval sett hvaða viðmið þið notið. Vona ég að kylfingar sýni ofangreindu skilning.

Vonandi getum við haft opið sem lengst en það eru að mestu veðurguðirnir sem ráða því. Við stefnum á að hafa vetraropnun líkt og í fyrra en ekki hefur en verið tekin ákvörðun um hvaða lykkja verður fyrir valinu, líkt og í fyrra verða vetrarflatir og teigar. Vetraropnun er hugsuð til þess að gefa fleirum kost á því að geta sveiflað á góðviðrisdögum yfir vetrarmánuðina. Þetta fyrirkomulag mældist svo vel fyrir síðasta vetur og þegar nær dró opnun komust færri að en vildu.

Annars vil ég þakka fyrir gott golfsumar og munið að gaffallinn á að vera í vasanum en ekki í pokanum

Með von um áframhaldandi gott samstarf!

Hólmar Freyr Christiansson
Vallarstjóri Korpu

Til baka í yfirlit