Ragnhildur hársbreidd frá öruggu sæti á LET! ⛳️

Lokamót LET Access mótaraðarinnar fór fram á Gambito Golf Calatayud vellinum á Spáni dagana 16.-18. október. Í mótið mættu efstu kylfingar tímabilsins og var til mikils að vinna. Efstu sjö kylfingar stigalistans í lok tímabils vinna sér inn fullan þátttökurétt á LET (Evrópumótaröðinni).

Ragga Kristins var á meðal keppenda mótsins. Eftir öfluga spilamennsku tímabilsins sat Ragga í sjötta sæti stigalistans fyrir lokamótið.

Fyrir lokamótið var Ragga í 6. sæti stigalistans og hún í góðum gír eftir fyrsta hringinn í mótinu. Ragga byrjaði frábærlega á fyrsta hring og var meðal annars í forystu á tímabili en því miður náði Ragga ekki í gegnum niðurskurð og lék hringi sína á 71-77 höggum. Hún endar tímabilið því í 8. sæti, einungis tveimur stigum frá efstu 7.

Eftir tíu holur í honum var hún m.a. í forystu en fjórir skollar á síðustu átta brautunum reyndust dýrir. Hún endaði hringinn samt á -1 og með svipaðri spilamennsku áfram hefði hún náð markmiði sínu. Í öðrum hring byrjar hún fyrstu holu á pari en á annari braut gerðist stóra slysið. Hún lék hana á 8 höggum, fjórum yfir pari og þrátt fyrir tvo fugla bættust líka við skollar og hún endaði hringinn á fimm yfir pari, 77 höggum og það var tveimur höggum frá niðurskurði sem hún þurfti að komast í gegnum.

Þrátt fyrir að hafa ekki komist beint inn á LET mótaröðina er enn tækifæri fyrir Röggu að öðlast þar þátttökurétt. Eftir frábæra spilamennsku tímabilsins hefur hún tryggt sér sæti í lokaúrtökumóti LET mótaraðarinnar sem fram fer 16.-20. desember í Marokkó. Þar munu kylfingar úr öllum áttum mæta og spila upp á 20 laus sæti í sterkustu mótaröð Evrópu.

Áfram Ragga – áfram GR 💙