Sigurður Bjarki sigraði VitHit Vormót í Þorlákshöfn

Sigurður Bjarki Blumenstein, GR, og Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS, stóðu uppi sem sigurvegarar í VitHit Vormóti GÞ. Þetta var annað mótið á GSÍ mótaröðinni í sumar og voru leiknar 36 holur yfir helgina.

Fyrirkomulag mótsins var breytt punktakeppni, og stigagjöfin eftirfarandi:

  • Albatross: 8 punktar
  • Örn: 5 punktar
  • Fugl: 2 punktar
  • Par: 0 punktar
  • Skolli: -1 punktur
  • Tvöfaldur skolli eða verra: -3 punktar

Í karlaflokki stóð Sigurður Bjarki Blumenstein, GR, uppi sem sigurvegari með 26 punkta. Hann var efstur eftir fyrri keppnisdaginn og lék aftur best á seinni deginum. Hann skilaði í dag hring upp á ellefu punkta, fjóra á fyrri níu og sjö á seinni. Sigurður var jafn með næstbesta meðalskorið á bæði par 3 og par 4 holunum um helgina, og var jafn með besta meðalskorið á par 5 holum. Stöðugt og gott golf hjá Sigurði.

Þremur punktum á eftir Sigurði var Tómas Eiríksson Hjaltested, GR. Tómas var jafn með flesta fugla allra í mótinu, fjórtán talsins, en hann var einnig með flesta fugla í Vormóti GM. Tómas og Sigurður Bjarki skiptust á að halda forystunni í gegnum seinni hringinn, og var spennandi að fylgjast með. Tómas endaði einnig í öðru sæti á Vormóti GM um síðastliðna helgi.

Arnór Tjörvi Þórsson, GR, varð þriðji með 19 punkta. Hann fékk, líkt og Tómas, fjórtán fugla í mótinu. Góður árangur í 36 holu móti.

Golfklúbbur Reykjavíkur átti flesta keppendur á GSÍ mótaörðinni um helgina, eða 19 talsins.

Hægt er að lesa nánari upplýsingar um mótið og úrslit á hlekknum hér fyrir neðan.

VitHit Vormót GÞ – Sigurður Bjarki og Heiðrún Anna sigurvegarar – úrslit og myndir – Golfsamband Íslands