Vallarstarfsmenn okkar vinna mörg mismunandi verkefni allt árið um kring, hér fyrir neðan er hægt að sjá lýsingar á helstu verkefnum sem reglulega fara fram á völlum félagsins. Undanfarin ár hefur verið átak í að gera umhverfi vallanna snyrtilegri, stór verkefni eins og malbikun og hellulögn hafa verið framkvæmd og alveg niður í að passa að orfa strá sem stinga í augun og er einnig mikið orfað af öðrum svæðum til að flýta golfleik. Trjábúskapur á völlum er mikill og þarf reglulega að grisja tré til að þau blómstri betur, í sumum tilfellum er tekið neðan af trjám til að auka loftflæði um vel valin svæði. Önnur viðhaldsverkefni sem ekki eru tilgreind hér á síðunni eru til dæmis holuskiptingar sem eru framkvæmdar daglega yfir tímabilið og eru teigmerki færð, rusl fjarlægt og vatn fyllt á boltaþvottavélar samhliða þeirri vinnu.

Yfirvallarstjóri og vallarstjórar okkar, þeir Ellert, Hólmar og Darren, fagna öllum þeim áhuga sem verkum þeirra eru sýnd og hvetjum við félagsmenn til að gefa sig að tali við þá, eða aðra starfsmenn valla, séu einhverjar spurningar sem vakna varðandi viðhald og framkvæmdir.

Götun / loftun

Flatir vallarins eru gataðar allt frá tvisvar til fjórum sinnum yfir tímabilið, þessi aðgerð er venjulega framkvæmd með mjóum tindum og verða fæstir kylfingar varir við að götun hafi átt sér stað. Vegna álags sem verður á flötunum við leik harðnar grasið og líður því ekki vel við slíkar aðstæðar, með því að gata flatirnar fæst loft niður í jarðveginn og hjálpar þannig rótarkerfi flatanna að fá aukið súrefni

Söndun

Að jafnaði eru flatir sandaðar á tveggja vikna fresti, ástæða þessarar aðgerðar er sú að slétta yfirborð flatanna sem svo hefur þau áhrif að boltinn hoppi sem minnst þegar púttað er. Einu sinni til tvisvar yfir tímabilið eru teigar valla sandaðir en þeir eru jafnframt torffylltir 2-3 sinnum í viku til að laga þær skemmdir sem kylfingar valda. Á það sérstaklega við um þá teiga þar sem járn eru mikið notuð í upphafshöggum.

Áburðargjöf

Notast er bæði við fljótandi áburð og kornaðan áburð þegar borið er á vellina. Borið er á flatir á ca. tveggja vikna fresti, teigar fá áburð 5-6 sinnum yfir golftímabilið og brautirnar 2-3 sinnum en það ræðst af veðuraðstæðum. Nánast aldrei er borið á röffið þar sem það gæti haft í för með sér vandræði með slátt.

Sláttur

Mismunandi er eftir svæðum vallarins hversu oft er slegið. Flatir eru slegnar 6-7 daga vikunnar yfir golftímabilið en stjórnast annars mikið af vexti, á Korpu er venjan að þær flatir sem leiknar eru 9 holur þann daginn eru ekki slegnar en hins vegar valtaðar til að halda uppi hraðanum. Brautir, teigar og svuntur er slegið þrisvar sinnum í viku, semi-röff og umhverfi flata tvisvar sinnum og röff að jafnaði slegin fimm sinnum í viku, mánudaga-föstudaga.

Þegar verið er að halda stór mót á völlunum er allur sláttur framkvæmdur daglega auk þess sem flatir eru bæði slegnar og valtaðar til að auka hraðann.

Glompur

Glompur eru rakaðar að lágmarki þrisvar sinnum í viku og alltaf fyrir mót. Þær glompur sem vantar sand í að vori er bætt í. Sandur sem klúbburinn hefur verið með að undanförnu hefur þarfnast hreinsunar og er það verk tímafrekt verkefni þar sem tækin sem til þess eru ætluð taka ekki mikið magn í einu.

Viðhald valla - fréttir