Um GR

Upphafið

Golfklúbbur Reykjavíkur hét upphaflega Golfklúbbur Íslands og var stofnaður þann 14. desember 1934. Klúbburinn var þá eini golfklúbbur landsins og var nafninu svo breytt þegar fleiri golfklúbbar urðu til. Stofnun klúbbsins má rekja til Kaupmannahafnar en þar voru Íslendingar við nám og störf sem höfðu komist í kynni við golfíþróttina. Sumir þessara manna urðu seinna áberandi í íslensku þjóðfélagi, má þar meðal annars nefna Svein Björnsson fyrrverandi forseti Íslands, Gunnlaug Einarsson læknir, sem var formaður klúbbsins fyrstu árin og Valtýr Albertsson læknir.

Fyrsta golfmót klúbbsins var haldið í Laugardalnum sumarið 1935, mótið var stórviðburður í borgarlífi Reykjavíkur á þessum tíma og héldu margir að um stundargaman hjá heldra fólki borgarinnar væri að ræða en raunin varð önnur. Fyrir þrotlausa vinnu og takmarkalausan áhuga forystumanna klúbbsins náði golfíþróttin að dafna hér á landi. Kylfingar fengu þó ekki að vera lengi í Laugardalnum en var í staðinn úthlutað svæði við Öskjuhlíðina í landi Leynimýrar sem þeir deildu fyrst um sinn með beljum í eigu Reykvíkinga. Fyrsta höggið á Öskjuhlíðarvelli sló Ingiríður, krónprinsessa Danmerkur og Íslands, hún var útnefnd verndari klúbbsins og er það enn í dag.

Uppbygging í Leynimýri

Öskjuhlíðavöllur í Leynimýri var 9 holu golfvöllur og golfskálinn þar fremur lítill en starfsemin engu að síður mjög lífleg. Upp úr 1950 fóru borgaryfirvöld og stjórnmálamenn að líta til landsins sem völlurinn stóð á og töldu landið nýtast betur sem byggingarlóð heldur en íþrótta- og útivistarsvæði. Niðurstaðan varð að svæðið var tekið undir byggingar og klúbburinn þvingaður til að flytja starfsemina í Grafarholtið sem taldist óræktarland í útjaðri borgarinnar. Kylfingar létu þetta ekki á sig fá og tókst að byggja bæði fallegan og góðan golfvöll á þessu landi þó að nær allan jarðveg skorti á staðnum til ræktunar.

Grafarholtsvöllur

Svíinn Nils Sköld hannaði völlinn og ekki hægt að segja annað en að hönnun hans hafi tekist afburðarvel. Völlurinn er einstakur að því leyti að engar tvær brautir eru eins og telst hann því bæði verða fjölbreyttur og skemmtilegur að spila. Erlendir golfblaðamenn sem sótt hafa völlinn heim eru allir á sama máli um það að önnur eins fjölbreytni sé sjaldgæf. Árið 1963 var byrjað að leika á nokkrum holum vallarins og voru svo fleiri holur smátt og smátt teknar í notkun. Í dag stendur Grafarholtsvöllur enn sem góður golfvöllur sem meðal annars hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar. Völlurinn er 5.962 m að lengd en nokkuð erfiður í göngu vegna þess hversu hæðóttur hann er og krefst það mikillar nákvæmni að leika völlinn vel. Vallarmet af öftustu teigum er 68 högg eða 3 undir pari vallar. Sumarið 2017 var nýtt vallarmet slegið af klúbbteigum, 62 högg, en lengi vel hafði það verið 63 högg.

Korpúlfsstaðavöllur

Nokkur alþjóðleg mót hafa verið haldin á Grafarholtsvelli – Norðurlandameistaramót þrisvar sinnum auk Evrópumeistaramóts drengja og Evrópumeistaramóts öldunga og gefur það glögga mynd af þeirri viðurkenningu sem völlurinn hefur á alþjóðavettvangi. Golfklúbbur Reykjavíkur hafði haft 12 holu æfingavöll við Korpúlfsstaði um nokkurt skeið og árið 1993 var ráðist í gerð nýs 18 holu vallar á landinu. Hannes Þorsteinsson, golfvallarhönnuður, var fenginn í verkið sem gekk bæði hratt og vel fyrir sig. Í júní árið 1996 opnuðu fyrstu 9 holurnar á nýjum Korpúlfsstaðarvelli og ári síðar, 1997 voru allar 18 holurnar teknar í notkun og Korpúlfsstaðarvöllur formlega vígður með Landsmóti golfklúbba í júlí 1997. Klúbburinn fékk úthlutað húsnæðið í austurenda Korpúlfsstaða undir klúbbaðstöðu sína og er þar að finna vel útbúinn veitingasal ásamt inniæfingaaðstöðu á efri hæð sem hægt er að nýta yfir vetrarmánuðina. Í dag er Korpúlfsstaðarvöllur orðinn 27 holu völlur en nýjasti hluti vallarins var formlega opnaður árið 2014 og skiptist völlurinn í þrjár 9 holu lykkjur – Sjórinn, Áin og Landið. Með þessum hætti er alltaf boðið upp á leik bæði á 18 holu og 9 holu velli á Korpúlfsstöðum.

Mót og félagsstarf

Korpúlfsstaðarvöllur er samtals 8.401 m að lengd og býr yfir mörgum fallegum brautum. Hver lykkja, af gulum teigum, er eftirfarandi lengd – Sjórinn 2.780 m, Áin 2.799 m og Landið 2.822 m og getur lengd vallar verið eitthvað mismunandi eftir því hvaða lykkjur eru leiknar. Árið 2004 var golfæfingasvæðið Básar við Grafarholt formlega opnað, við uppbyggingu Bása fékk Golfklúbbur Reykjavíkur styrk frá Reykjavíkurborg og Royal & Ancient Golf Club of St. Andrews. Æfingaaðastaðan sem boðið er upp á stendur á þremur hæðum og eru 73 básar sem hægt er að slá úr út á flóðlýst 5 hektara svæði. Sumarið 2006 var svo æfingavöllurinn Grafarkot opnaður en þar reynir vel á hæfni kylfinga í stutta spilinu en um er að ræða 6 holu völl með 30-60 metra löngum brautum.

Golfklúbbur Reykjavíkur er stoltur af því að geta boðið félagsmönnum sínum og öðrum kylfingum upp á glæsilega golfvelli og mismunandi æfingasvæði þar sem hægt er að þjálfa sig í öllum sveiflum golfíþróttarinnar.