Umgengnisreglur golfarans

Vinsældir golfíþróttarinnar aukast ár frá ári. Helstu áskoranir þeirra sem reka fjölmenna golfklúbba og umsetna golfvelli eins og GR-vellina er að koma sem flestum að á golfvellinum. Um leið viljum við gera alla upplifun af golfinu sem ánægjulegasta. Til þess hefur m.a. rástímum verið fjölgað svo fleiri geti bókað og notið þess að spila. Sú aðgerð ein og sér krefst þess að jöfnum og eðlilegum leikhraða sé haldið uppi hvern einasta dag. Góður leikhraði og góð umgengni skiptir alla kylfinga mjög miklu máli og eykur ánægjuna á vellinum.

Allir geta tamið sér betri umgengnis- og leikreglur til að bæta leikhraðann og halda golfvellinum í betra ástandi.

Við fengum golfboltann sjálfan með í lið til að hjálpa okkur í þessu verkefni sem hefur tekið á sig mynd „persónu“. Það er sem sé GR-golfboltinn sem fræðir á léttum nótum um fjölmörg atriði sem hafa þarf í huga til að spila BETRA GOLF.

Munum að hver einasta mínúta telur á 18 holu hring.

Gerum þetta saman.

Með golfkveðju,
GR

Boltaleit 3 mín

Ef boltinn týnist, þá hefurðu að hámarki 3 mínútur til að leita.

Settið í átt að næsta teig

Vertu klár með settið í átt að næsta teig, áður en gengið er inn á flötina til að pútta. Það flýtir leik.

Haltu í við næsta holl

Til að halda góðum leikhraða er mikilvægt að halda í við hollið á undan.

Rökum glompur

Skóför og kylfuför í glompum skemma leik fyrir næsta kylfingi. Skildu ávallt við glompuna eins og þú vilt koma að henni.

Kylfuför á brautum

Hugsum vel um völlinn, það vill enginn að boltinn lendi í kylfufari.

Rusl í tunnur

Rusl í tunnur, fallegri völlur.

Brotin tí í tíbox

Það gerir ásýnd teigsins fallegri að hafa hann snyrtilegan. Tí á víð og dreif trufla og tefja leik.

Teigur við hæfi

Það eykur ánægjulega upplifun að spila þá lengd vallar sem hæfir þinni forgjöf.

Boltaför á flötum

Lögum öll boltaför. Betri flöt.

Klár fyrir næsta högg

Gakktu að boltanum þínum, veldu kylfu og vertu klár þegar röðin kemur að þér að slá.