Framtíðarsýn Grafarholtsvöllur

Upplýsingar

Í desember 2021 skipaði stjórn GR vallarnefnd fyrir Grafaholtsvöll. Nefndin var skipuð stjórnarmönnum og félagsmönnum utan stjórnar sem valdir voru út frá forsendum um að raddir mismunandi hópa, út frá aldri, kyni og getustigi, kæmust að. Jafnframt því sem leitast var við að fá kylfinga með reynslu og sögu úr klúbbstarfinu.

Verkefni Grafarholtsnefndarinnar var að yfirfara masterplan Tom McKenzie. Guðmundur Arason, stjórnarmaður, fór fyrir nefndinni, en hann er í hópi þeirra sem þekkja völlinn hvað best, hafandi alist upp á honum og verið félagsmaður frá því á áttunda áratug síðustu aldar. Nefndin hafði aðgang að Tom McKenzie og vallarstarfsmönnum klúbbsins í sinni vinnu.

Hér má nálgast Masterplan McKenzie sem unnið er eftir – Masterplan_Grafarholt.2022

Verkefnin eru að auka gæði teiga, brauta, glompa og flata, og þá sérstaklega ósléttar brautir og hversu seinar flatirnar eru til á sumrin. Styrkleikar vallarins eru sagan, gróðurfar, náttúrufegurð, veðursæld, lega brauta og skemmtanagildi. Þrátt fyrir veikleikana er hann í miklu uppáhaldi hjá kylfingum. Því skal haldið til haga að ekki er um nýtt verkefni að ræða, heldur hefur það verið í undirbúningi í lengri tíma og fjárhagsstaða klúbbsins styrkt þannig að verkefnið sé viðráðanlegt.

Afrakstur af vinnu nefndarinnar sem og fyrri undirbúningi er uppfært masterplan sem stjórn GR hefur samþykkt að vinna eftir, en þó þannig að ekkert hafi verið meitlað í stein ennþá og einstakir áfangar verði ákveðnir hver fyrir sig. Eftirfarandi atriði eru höfð að leiðarljósi í planinu:

  1. Endurbætur á vellinum í núverandi mynd þannig að landslag, náttúra og karaktereinkenni haldi sér.
  2. Nokkrar afmarkaðar breytingar eru fyrirhugaðar, með það að markmiði að gera völlinn enn betri og nútímanlegri. Með þeim fæst aukin lengd í völlinn á öftustu teigum, sérstaklega á fyrri 9 holunum, sem er mikilvæg til að viðhalda honum sem keppnisvelli. Gerð verður grein fyrir helstu breytingum hér síðar.
  3. Áherslan verður á vönduð vinnubrögð eftir bestu þekkingu, þannig að teigar, brautir, glompur og flatir verði í sem bestum gæðum jafnframt því sem rask á náttúru og landslagi verði sem minnst. Gætt verði að því að völlurinn verði sem hagkvæmastur í viðhaldi, vatn eigi greiða leið af honum og safnist ekki á óæskilegum stöðum, og loks bætt öryggi á vellinum.
  4. Völlurinn verður áfram keppnisvöllur og styrktur sem slíkur. Jafnframt verði framteigum gert hærra undir höfði þannig að hann henti kylfingum á öllum aldri og getustigum.

Að öðru leyti en hér hefur verið talið upp er ætlunin að láta völlinn halda sér í núverandi mynd. Einhverjar breytingar kunna að verða á staðsetningum flata, á landslagi og staðsetningu glompa, en þær breytingar teljast minniháttar og verða að sjálfsögðu ekki gerðar nema þær þjóni sérstökum tilgangi. Á undanförnum árum hefur mest umræða verið um fyrirhugaðar breytingar á 7. og 11. braut. Sú fyrnefnda verður áfram til sérstakrar skoðunar. Vilji stendur til þess að núverandi flatarstæði haldi sér ef kostur er, að teknu tilliti til gæðasjónarmiða, en það verður rannsakað betur.  Í planinu er ekki gert ráð fyrir öðrum breytingum á 11. braut en að flötin verði löguð til og stækkuð, auk þess sem möguleiki er á nýju teigstæði fyrir framteiga með betra útsýni.

Áfangar

18.braut
Verkefnið hófst haustið 2021 með því að 18. brautin fram að vegi var tekin upp og hefur nú verið endurgerð.

1.teigur
Vorið 2022 var ráðist í endurgerð á teigstæði við 1. braut og voru þeir opnaðir í ágúst sama ár.

17.braut
Veturinn 2022 var hafist handa við framkvæmdir á nýrri 17. holu, um er að ræða nýja staðsetningu á flöt og teigstæði.

18. braut Myndir

1. teigur Myndir

17. braut Myndir