Fyrirmyndafélag ÍSÍ er gæðaviðurkenning fyrir barna- og unglingastarf. Viðurkenningin felur í sér að Golfklúbbur Reykjavíkur hefur staðist þær gæðakröfur sem íþróttahreyfingin gerir. Til þess að standast slíkar gæðakröfur þarf íþróttafélag að sýna það í verki að hún geri raunhæfar kröfur um gæði og innihald þess starfs sem það vinnur.
Á aðalfundi Golfklúbbs Reykjavíkur 5. desember 2013 veitti Sigríður Jónsdóttir, sem sat í framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, félaginu gæðaviðurkenningu ÍSÍ vegna barna- og unglingastarfs félagsins og um leið réttinn til að kalla sig Fyrirmyndafélag ÍSÍ.
Sigríður talaði þá um mikilvægi þess að golfklúbbar eins og GR gengu öðrum lengra í forvarnarstefnu sinni þar sem nálægðin við sölu og neyslu áfengis og tóbaks væri meiri en í öðrum íþróttum. Sigríður hrósaði stjórn GR og starfsfólki þess fyrir vel unnin störf í þágu barna- og unglingastarfs og óskaði GR-ingum öllum til hamingju með þessa gæðaviðurkenningu.