Grafarholtsvöllur var hannaður af Svíanum Nils Sköld og var leikið á fyrstu holunum árið 1963, sem gerir völlinn 60 ára gamlan í ár, 2023. Völlurinn hefur haldist vel í gegnum árin og er enn talinn meðal bestu valla landsins.
Völlurinn er hæðóttur og getur reynst erfiður viðureignar, sér í lagi óreyndum kylfingum. Það er þó mál manna að þegar golfið gengur vel þá eru fáir vellir skemtilegri en Grafarholtsvöllur. Völlurinn hefur iðulega verið notaður í Íslandsmótum og öðrum stærri golfmótum.
Vallarmat & vægi: Vallarmat og vægi – Grafarholt
Forgjafartafla:
GR – Grafarholt – Vallarforgjöf 170624
Staðarreglur:
GR – Staðarreglur – Grafarholt 2024
GR – Auka Staðarreglur – Grafarholt 2024 uppfært 06 Júlí
Bændaglíma GR_keppnisskilmálar
Velkomin í Grafarholtið. Frábært útsýni yfir áskorunina sem framundan er, sjálfan Grafarholtsvöll. Mói, lyng, hæðir, lægðir, glompur og vötn en umfram allt er völlurinn krefjandi og skemmtileg áskorun fyrir alla kylfinga.
Þeir kylfingar sem mæta hlaðnir sjálfstrausti til leiks og búa yfir nægri högglengd ættu reyna við flötina í teighögginu. Allar hættur brautarinnar blasa við frá teig. Skynsemin skilar hins vegar yfirleitt betra skori. Komirðu boltanum yfir veg og á miðja braut eru ekki nema rétt um 100 metrar eftir á flötina.
Þægileg byrjunarhola sem gefur möguleika á góðu skori.
Flötin hallar öll á móti teighögginu. Gott er að miða á glompuna fyrir framan flötina og slá örugglega yfir hana, en stutt á pinnann til að eiga pútt upp í móti eftir. Pútt niður í móti geta verið snúin á flötinni.
Alls ekki slá yfir flötina í teighögginu. Það er örugg uppskrift að skolla.
Glompur hægra og vinstra megin við braut eru hannaðar til að vísa veginn á miðja braut. Vandið teighöggið og verið umfram allt á brautinni. Bolti í skóginum hægra megin er vandfundinn og illsláanlegur.
Högg frá braut og inn á flöt er einfalt sé því haldið beinu og landslag í flötinni er lítið. Mikilvægt er að lengd innáhöggsins sé rétt metin. Þrjár glompur verja flötina hægra og vinstra megin.
Sláið teighöggið beint í átt að brautarglompunni. Þeir högglöngu geta farið vinstra megin við hana og átt þannig góðan möguleika á að ná inn á í tveimur höggum. Flötin er löng og í henni er mikið landslag, því er mikilvægt að haga inn á höggi eftir því hvar pinninn er staðsettur. Best er að slá inn á flötina hægra megin af brautinni og ætti að taka mið af því þegar lagt er upp fyrir inn á högg.
Erfiðasta braut vallarins í sögulegu samhengi. Hundslöpp frá hægri til vinstri. Þeir sem hafa kjark slá yfir móann í átt að 100 metra hælnum. Hér er, eins og víðar á Grafarholtsvelli, lykilatriði að teighöggið sé á brautinni – þótt það geti kostað að innáhöggið sé lengra. Notið glompuna á miðri brautinni til að miða inn á höggið á flötina. Mikið landslag í lítilli flöt og því snúið að ná góðu skori.
Lykillinn að góðu skori er að slá boltann fremst inn á flötina. Bolti sem kemur rúllandi inn á endar oftar en ekki aftast á langri flötinni. Móinn hægra megin er erfiður viðureignar þar sem boltar eru oft ósláanlegir. Vipp frá vinstri hlið flatar krefjast mikillar lagni, þar sem flötin hallar öll frá vinstri til hægri.
Dalurinn er af flestum talin fallegasta hola vallarins. Liggur í hundslöpp frá hægri til vinstri. Stórt lendingarsvæði i boði fyrir þá sem eru tilbúnir í að slá 110-130 metra inn á flötina. Flötin er lítil og á tveimur pöllum. Mikilvægt er í inn á högginu að hitta þann rétta. Djúpar glompur hægra megin við flötina hafa reynst kylfingum erfiðar.
Gefið ykkur tíma til að njóta útsýnisins yfir Reykjavíkurborg. Hér er betra að teighöggið sé ekki of langt. Lendi það í brekkunni innan við 100 metrana á brautinni er innáhöggið á flötina blint. Á þessari braut er það innáhöggið sem er flókið, mikill hæðarmunur frá braut og inn á stóra tveggja palla flöt sem er vel varin með fjórum djúpum glompum. Par er gott skor. Sættir þig við skollann.
Svo er pylsa í skúrnum við 10. teig í hálfleik.
Pínulítil einhallaflöt bíður eftir inn á högginu þegar það hefur flogið yfir móann og glompuna vinstra megin. Glompuna hægra megin ætti engin að hitta. Gott er að miða á milli hennar og pinnans. Boltar sem lenda hægra megin við flötina ættu að skoppa að henni og inn á. Hæðarmunurinn er mikill.
Taktu kylfu eða tvær til viðbótar við það sem þér þætti eðlilegt.
Örn eða skrambi? Yfir móann eða beint á braut?
Þriðja hundslapparhola vallarins frá hægri til vinstri og núna er hún par 5. Teighögg yfir móann gefur gríðarlega gott færi á fugli eða jafnvel erni. Klikki það plan er voðinn vís. Einhalla miðlungsstór flöt sem er einfalt að lesa og pútta. Varið ykkur á glompunni hægra megin við flötina sem sést ekki frá brautinni.
Flennibreið braut sem óafsakanlegt er að hitta ekki. Hér verður boltinn að vera á brautinni því inn á höggið er mjög flókið sökum hæðarmunar. Svo ekki sé minnst á ef vindur blæs á móti.
Þótt flötin líti sakleysislega út þá er hún mjög flókin og hallinn á henni mun meiri en hann virðist. Sérstaklega fremst hægra megin. Hér hafa kylfingar púttað útaf flötinni og 40 metra niður í brekku. Það er skellur.
Heyri ég fuglasöng?
Já en þá má ekki setja boltann í glompuna eða út í móa. Sláið teighöggið upp vinstri hluta brautarinnar. Boltinn mun rúlla til hægri allan tímann vegna halla brautarinnar. Flötin er slétt en hægt er að velja um tvær leiðir til að slá inn á hana. Upp til vinstri og þá frekar stutt og boltinn rúllar til hægri og inn á flötina. Fyrir þá kjarkmeiri, velja rétta kylfu og slá beint inná flötina og láta boltann stoppa þar. Fuglinn bíður.
Framundan eru erfiðustu lokaholur á golfvelli á Íslandi. Hér er gott að staldra við og fá sér næringu, ekki veitir af. Níur og tíur eru algeng sjón á skorkortinu á fimmtándu. Teighöggið verður að hitta brautina svo vandaðu miðið vel. Það er yfirleitt meira til vinstri en þú heldur. Hæðarmunurinn frá teig niður á braut er snúinn. Reynið að finna góðan staða handan brautarglompunnar við 100 metra hælinn fyrir innáhöggið. Sláið alla leið. Tjörnin gleypir marga bolta. Flötin er einhalla á móti inn á höggi af miðri braut. Snúið getur verið að vippa uppúr lægðinni hægra megin.
Par er geggjað skor.
Hér er komin fyrsta og eina braut vallarins þar sem þú sérð ekki lendingarsvæðið. Miðið hægra megin við stóra steininn í móanum til að komast í 150 metra færi við flötina. Ef fara á lengra, þá sláið beint yfir hann. Risastór flöt með mjúku landslagi. Sextánda hefur reynst mörgum snúin, sérstaklega af öftustu teigunum. Forðist skurðina, bæði hægra og vinstra megin.
Endurbætt 18. braut með þremur vel staðsettum glompum. Hér geturðu valið um að spila stutt á glompurnar hægra megin og eiga langt inn á högg. Slegið teighöggið að vinstri glompunni á gott lendingarsvæði og átt miðlungslangt innáhögg. Tekið sénsinn, reynt að slá yfir glompurnar og eiga eftir stutt inn á högg á risastóra 18. flötina sem er á tveimur pöllum. Inn á högg yfir flötina er uppskrift að skolla.
Spilið stutt á pinnann og púttið upp í móti. Góður möguleiki á fugli og klappi af svölunum, það er góð leið til að ljúka leik á þessum frábæra golfvelli.