Korpúlfsstaðavöllur er gríðarlega skemmtilegur golfvöllur sem er vafinn í kringum íbúðahverfi í Grafarvogi.
Völlurinn er 27 holur og skiptist í Sjóinn, Ána og Landið. Er þessum þremur völlum raðað mismunandi eftir dögum svo hægt er alla daga að spila ýmist 18 eða 9 holur.
Vallarmat & vægi:
Vallarmat og vægi Korpa 2024
Forgjafartöflur 9 holur:
GR – Korpa Sjórinn – Vallarforgjöf
GR – Korpa Áin – Vallarforgjöf
GR – Korpa Landið – Vallarforgjöf
Forgjafatöflur 18 holur:
GR – Korpa Sjórinn-Áin – Vallarforgjöf
GR – Korpa Áin-Landið – Vallarforgjöf
GR – Korpa Sjórinn-Landið – Vallarforgjöf
GR – Korpa Landið-Áin – Vallarforgjöf
Staðarreglur: GR – Staðarreglur – Korpa 2024
Meistaragolf Samskipa KORPU 2024
Þægileg opnunarhola með stórt og mikið lendingarsvæði fyrir teighöggið. Verkefnið hér að er að staðsetja annað höggið vel til að eiga góðan möguleika að nálgast pinnann í inn á högginu. Flötin hallar öll frá innáhögginu og því betra að spila stutt á pinnann og ná tveimur öruggum púttum í holu.
Glæsilegt útsýni yfir Úlfarsfell og ánna af flötinni.
Hér er engin ástæða til að slá með drivernum að teig, nema stefnan sé að fara inn á í tveimur höggum. Öruggasta leiðin er að spila á miðja brautina og staðsetja svo annað höggið vel. Inn á höggið má svo slá alla leið inn á flötina á flugi, eða láta það renna eftir brautinni inn á vinstri hluta flatarinnar inn á risastóra einhalla flöt. Inn á höggið má ekki vera of stutt, of langt eða of mikið til hægri. Takist það er einfalt að pútta.
Brautin er þekkt fyrir fugla, pör og sprengjur.
Ef þú treystir þér ekki alla leið yfir helgunarsvæði Korpunnar, þá skaltu spila til vinstri, vippa inn á og taka öruggan skolla. Mótvindurinn á brautinni er oft erfiðasti andstæðingurinn. Vertu viss um að drífa alla leið. Flötin er slétt og þægilegt að pútta. Púttaðu beint í holuna.
Fyrsta brautin af fimm eftir glæsilegri strandlengju. Vertu viss um að miða til vinstri og svo aðeins betur til vinstri. Sýnið gangandi og hjólandi vegfarendum tillitssemi. Sláið svo driver eins langt og þið getið. Gott teighögg er verðlaunað með auka rúlli ef þið náið yfir hrygginn á miðri brautinni. Flötin er stór og í henni er lítið landslag. Oft er snjallt að slá inn á höggið í kantinn vinstra megin og láta boltann rúlla þaðan inn á flötina
Ef þú getur slegið langt með driver þá reynirðu við flötina. Engar refjar. Bara negla. Ef þú treystir þér ekki í það þá bara stutt á skurðinn og örugglega inn á í tveimur. Hæðarmunur af braut og upp á flöt býður upp á að taka einni kylfu meira í inn á höggið. Flötin lítur út fyrir að vera slétt en í henni leynist töluvert líf og lítil brot. Vandið púttin.
Staldrið við og njótið útsýnisins. Að margra mati er þetta fallegast par 3 hola vallarins. Bara fyrir útsýnið. Eru mörg skemmtiferðaskip í höfn? Þessi braut þarf engar glompur. Rétt um 100 metra högg á stóra flöt með miklu landslagi. Boltinn leitar alltaf til hægri eftir lendingu. Vandið kylfuval af teig og reynið að komast eins nálægt pinnanum og hægt er því púttin eru flókin.
Þetta er fuglahola. Sækið fugl eða jafnvel örn. Hrafnar hafa átt til að vera með laup í klettunum. Teighöggið verður að lenda á brautinni. Takist það ekki þá er verið að tala um rugl en ekki fugl. Flötin er einhalla á móti teighögginu. Varist glompurnar.
Komið teighögginu á braut. Hér felst aðal áskorunin í inn á högginu. Það verður að vera hnitmiðað, en töluverður hæðarmunur er frá braut uppá flöt. Flötin liggur á ská gagnvart inn á högginu og mikilvægt að hitta flötina en alls ekki yfirslá pinnann. Mikill halli er á flötinni og snúið að pútta niður í móti.
Takið eina aukakylfu til að ná inn á flötina. Aðra ef pinninn er aftast á efsta palli. Ömurlegt teighögg þarf til að hitta glompurnar og skrambi sanngjörn niðurstaða eftir slíkt högg. Flöt sem auðvelt er að þrípútta.
Hér þarftu að vanda þig því fjöldi áhorfenda er að fylgjast með teighögginu. Ekkert stress, bara njóta. Hér þarf engan driver, heldur bara kylfu sem kemur þér örugglega á miðja braut. Driverinn er líklegur til að skila þér á Thorsvöllinn og áhorfendurnir fá að sjá þig slá þriðja högg af teig. Flötin er stór og inn á höggið einfalt. Púttin líka þar sem flötin er slétt. Alls ekki fara til vinstri í inn á högginu.
Ef þú ætlar að „kötta“ hornið, þá verðurðu að drífa, því vítið ertu bara að taka á teignum. Tvö góð millilöng högg koma þér í gott færi til að slá inn á höggið nálægt pinna. Forðist að fara til vinstri. Spilið inn á höggið stutt og látið skoppa inn á. Glompan við flötina getur verið snúin.
Endalaust vesen í boði. Teighöggið verður að enda á brautinni. Ef þú ert ekki viss um að komast alla leið inn á í tveimur höggum, spilaðu þá inn á höggið stutt og vippaðu inn á. Skolli er gott skor á þessari stuttu par 4 holu.
Veldu rétta kylfu í teighöggið. Hittu réttan stað á flötinni með tilliti til pinnans. Stutt hola með risastóra flöt með miklu landslagi. Góð uppskrift að skolla er að hitta ekki flötina og vitna má í fleyg orð úr golfinu: „Að hitta ekki flöt með fleygjárni er eins og að hitta ekki í munninn á sér gaffli“
Eitt flottasta teighögg sem boðið er uppá á Íslandi. Nýtið það vel. Leyfum laxinum að lifa og setjum boltann á flugi alla leið á brautina. Sláið teighöggið hægra megin við pinnann inn á flötina því flötin hallar öll til vinstri. Risastór og glæsileg flöt á flottri holu.
Miðið teighögginu á glompuna hægra megin og þá er nánast öruggt að þið hittið hana ekki. Teighögg sem eru of mikið til vinstri leita öll í helgurnarsvæði árinnar og kosta víti. Spilið inn á höggið stutt og boltinn rúllar inn á flötina. Sláið alls ekki yfir flötina. Það er vesen á annars einfaldri braut.
Dauðafæri að sækja fugl. Sé teighöggið nógu langt er gott færi á að komast inn á í tveimur. Hér er óhætt að slá vel yfir flötina í inn á högginu og einfalt að vippa til baka. Allt betra en að lenda í vatninu. Risastór flöt með miklu landslagi. Nauðsynlegt að hitta réttan hluta hennar miðað við staðsetningu pinnans.
Hægra megin glompa sem sést ekki af teig. Miðið á Korpúlfsstaði og sláið inn á vinstri hluta flatarinnar. Flötin virðist slétt en hallar öll frá teighögginu og í henni eins og mörgum flötum á Ánni leynist lúmskt landslag. Skolli er gott skor.
Þetta teighögg kallar bara „kreista, kreista, kreista“ því alveg eins og í teihgögginu á 10. braut þá eru áhorfendur að fylgjast með. Og hér er bara í boði að taka eina kylfu – Driverinn. Ef þú drífur ekki yfir, þá er ekkert annað í boði en skammarganga heim í hús. Það kemur ekki til mála. Vandið teighöggið. Það verður að ná vel inn á brautina. Hæðarmunurinn inná flötina er lúmskur, sérstaklega ef pinninn er aftast. Svo takið nógu langa kylfu til að komast inn á. Farið alls ekki í glompurnar hægra megin.
Þægileg opnunarhola þar sem mikilvægt er að hitta brautina. Varist glompurnar. Inn á höggið verður að vera hnitmiðað og eins og víða á Korpunni bannað að yfirslá flötina.
Enn og aftur er slegið yfir Korpuánna. Ætti ekki að vera flókið að þessu sinni en markmiðið hér er að negla teighögginu eins langt og hægt er. Lendingarsvæðið er nánast ótakmarkað en best að hafa það beint á flötina. Innkoma inn á hana er best frá miðri braut eða aðeins hægra megin af brautinni. Högg frá vinstri er snúnara.
Tiltölulega auðveld braut og krafa á að minnsta kosti par.
Sláið teighöggið vinstra megin á brautina til að ná að koma beint inn á mjög djúpa og mjóa flöt. Allt hægra megin er vesen. Högg eru fljót að tapast þegar bolti lendir í trjánum hægra megin.
Stór flöt þar sem auðvelt er að þrípútta.
Takið aukakylfu fyrir hæðarmuninn. Landslagið í flötinni er lúmskt og oft er fyrsta púttið tekið af löngu færi. Sláið vinstra megin inn á flötina og boltinn kastast til hægri. Allt hægra megin er vesen.
Leikið meðfram Korputorginu sem er kannski engin golfvallarprýði en veitir stundum gott skjól. Löng par 4 hola sem krefst tveggja góðra högga til að ná inn á risastóra flöt sem öll hallar á móti inn á högginu sem má alls ekki fara yfir flötina. Spilið stutt á pinnann og púttið upp í móti að holunni.
Frábær par 5 hola sem gefur góð færi á fuglum takist teighöggið vel. Hér er mikilvægt að ná löngu teighöggi. Takist það er möguleiki að fara yfir ána í tveimur höggum og í gott færi við flötina. Sé vafi er óþarft að taka áhættu. Leggja þá annað höggið í átt að trébrúnni yfir ána. Flötin er ein sú minnsta á vellinum og inn á höggið krefst nákvæmni.
Mikið líf er í flötinni og stutt pútt geta verið snúin.
Löng og breið braut. Á síðustu tveimur holunum er um að gera að slá eins fast með drivernum og hægt er. Nægt pláss og röffið ekki hátt. Enn og aftur er mikilvægt að inn á höggið fari ekki yfir flötina heldur sé stutt og púttað sé upp í móti að holunni en flötin hallar öll á móti inn á högginu.
Leiðin heim að Korpúlfsstöðum. Fyrstu tvö höggin þarf að slá eins langt og hægt er til að koma sér í góða stöðu fyrir þriðja höggið sem gæti allt eins verið pútt ef allt gengur að óskum. Flötin er ein sú stærsta á vellinum og engin ástæða til að láta glompurnar í kringum hana trufla inn á höggið en þar sem flötin er risastór þarf að hitta réttan hluta hennar annars gætu lokapúttin verið þau lengstu á öllum hringnum.