Aðalfundur Golfklúbbs Reykjavíkur var haldinn á Korpúlfsstöðum þriðjudaginn 3. desember og var mæting félagsmanna góð. Formaður félagsins, Gísli Guðni Hall, gerði grein fyrir skýrslu formanns um störf stjórnar á árinu. Harpa Ægisdóttir, fjármálastjóri, kynnti ársreikning félagsins og fór yfir fjárhagsáætlun komandi starfsárs. Fundarstjóri var Ólafur Arinbjörn Sigurðsson.
Gísli Guðni bauð sig fram til áframhaldandi formennsku og hefur nú sitt fjórða ár sem sitjandi formaður. Sitjandi stjórnarmenn – Brynjar Jóhannesson, Kristín Eysteinsdóttir og Ólafur William Hand gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu í aðalstjórn til tveggja ára. Fyrir í aðalstjórn sitja þau Elín Sveinsdóttir, Guðmundur Arason og Margeir Vilhjálmsson Þau voru þannig sjálfkjörin í aðalstjórn til næstu tveggja ára. Í varastjórn gáfu kost á sér Arnór Ingi Finnbjörnsson, Hrannar M. Hallkelsson og Þórey Jónsdóttir og eru stjórn og varastjórn þannig fullskipuð.
Rekstur klúbbsins gekk vel á starfsárinu 2023-2024 og námu tekjur alls 788 milljónum króna og rekstararafgangur 60,7 milljónir. Heildareignir nema 1.600 milljónum króna og eiginfjárstaðan sem og lausafjárstaðan er sterk. Á rekstrarárinu störfuðu 18 heilsársstarfsmenn hjá klúbbnum og að auki 66 sumarstarfsmenn. Að öðru leyti vísar stjórn klúbbsins til meðfylgjandi ársreiknings um rekstur og fjárhagsstöðu.
Golfklúbbur Reykjavíkur annast rekstur 18 holur golfvallar og 6 holu æfingavallar í Grafarholti ásamt rekstri 36 holu golfvallar (4×9, þ.e. Sjórinn, Áin, Landið og Thorsvöllur) á Korpúlfsstöðum. Ennfremur rekur klúbburinn æfingaaðstöðu Bása í Grafarholti auk inniæfinga- og félagsaðstöðu á Korpúlfsstöðum.
Eins og undanfarin ár voru miklar framkvæmdir á vallarsvæðum félagsins á starfsárinu, hæst ber formleg opnun nýrrar 17. brautar á Grafarholtsvelli en brautin vakti mikla hrifningu kylfinga sem hana léku. Aðrar framkvæmdir í Grafarholti voru sléttun 4. brautar, uppbygging nýrrar flatar á 1. braut, uppbygging nýrra bakteiga á 4. og 18. braut sem og mörg önnur minni verkefni, t.d. var sett upp tímabundin aðstaða starfsmanna, en sú sem fyrir er er úr sér gengin.
Stærstu framkvæmdir á Korpu á liðnu starfsári var malbikun stíga, Sjórinn sem og aðrir stórir vinnustígar voru malbikaðir. Í vetur verður farið að ljúka malbikun stíga á Ánni og Landinu. Byggðir voru upp fjórir nýir framteigar, á 1., 3., 4. og 8. braut ásamt tveimur nýjum bakteigum á 5. og 13. braut. Ný púttflöt Korpu sem hefur verið í uppbyggingu síðastliðin tvö ár verður formlega tekin í notkun í byrjun næsta tímabils.
Formaður fór yfir helstu niðurstöður úr viðhorfskönnun sem gerð var í byrjun nóvember og eru hástökkvarar milli ára eftirfarandi atriði: leikhraði, eftirlit á völlum, stígar á báðum völlum og aðstaða í Básum. Fallandi þættir eru: aðgengi að rástímum, gæði glompa á báðum völlum og gæði teiga. Allt eru þetta atriði sem stjórn og starfsfólk munu fara vel yfir fyrir komandi ár.
Fjárhagsáætlun GR 2025 var samþykkt á aðalfundi. Félagsgjöld 2025 verða:
Félagsmenn 19-26 ára, kr. 82.500
Félagsmenn 27-73 ára, kr. 165.000
Félagsmenn 74 og eldri, kr. 141.400
Félagsmenn 75 ára og eldri*, kr. 106.100
*enda hafi félagi verið í GR í a.m.k. 10 ár samfellt
Leiknir hringir á árinu voru 93.309 samanborið við 93.970 á fyrra ári. Félagsmenn léku 4.071 hringi á vinavöllum félagsins og vinavallasamningar því ágætlega nýttir í ár. Leiknir hringir hefðu orðið mun fleiri ef óhagstætt verður hefði ekki sett strik í reikninginn. Kynjahlutfall í klúbbnum er 35% konur á móti 65% karla og stendur í stað á milli ára.
Tillaga var lögð fram og samþykkt um aðildargjald að Thorsvelli. Þeim aðilum sem nú eru á biðlista eftir inngöngu í GR verður boðin aðild að Thorsvelli fyrir komandi sumar sem veitir aðgang að Golfbox. Heildarfjöldi fyrir þessa aðild verður 200 manns og mun frekari útfærsla á þessari aðild vera kynnt í janúar.
Golfklúbbur Reykjavíkur þakkar Árna Tómassyni og Guðmundi Frímannssyni, endurskoðendum, fyrir sína vinnu og kjörnefnd fyrir sitt starf. Sérstakar þakkir færum við Ólafi Arinbirni Sigurðssyni fyrir faglega og góða fundarstjórn og félagsmönnum fyrir sína þátttöku.
Stjórn, framkvæmdarstjóri og starfsfólk klúbbsins þakkar félagsmönnum fyrir gott starfsár.