Aðalfundur GR – góður rekstur og miklar framkvæmdir á völlum félagsins

Aðalfundur Golfklúbbs Reykjavíkur var haldinn á Korpúlfsstöðum þriðjudaginn 5. desember og var þátttaka góð. Formaður félagsins, Gísli Guðni Hall, gerði grein fyrir skýrslu formanns um störf stjórnar á árinu. Harpa Ægisdóttir, fjármálastjóri kynnti ársreikning félagsins og fór yfir fjárhagsáætlun komandi starfsárs. Fundarstjóri var Ólafur Arinbjörn Sigurðsson.

Gísli Guðni bauð sig fram til áframhaldandi formennsku og hefur nú sitt þriðja ár sem sitjandi formaður. Sitjandi stjórnarmenn – Elín Sveinsdóttir, Guðmundur Arason og Margeir Vilhjálmsson buðu sig fram til áframhaldandi setu í aðalstjórn en engin ný framboð komu fram. Þau voru þannig sjálfkjörin í aðalstjórn til næstu tveggja ára. Fyrir sátu í aðalstjórn Brynjar Jóhannesson, Kristín Eysteinsdóttir og Ólafur William Hand sem kjörin voru til tveggja ára á aðalfundi 2022. Í varastjórn gáfu kost á sér Arnór Ingi Finnbjörnsson, Hrannar M. Hallkelsson og Þórey Jónsdóttir og eru stjórn og varastjórn þannig fullskipuð. Hrannar kemur nýr inn í varastjórn félagsins.

Rekstur klúbbsins gekk vel á starfsárinu 2022-2023 og námu tekjur alls 683 milljónum króna og rekstararafgangur 79.5 milljónum. Heildareignir nema 1.517 milljónum króna og eiginfjárstaðan sem og lausafjárstaðan er sterk. Á rekstrarárinu störfuðu 16 heilsársstarfsmenn hjá klúbbnum og að auki 64 sumarstarfsmenn. Að öðru leyti vísar stjórn klúbbsins til meðfylgjandi ársreiknings um rekstur og fjárhagsstöðu.

Golfklúbbur Reykjavíkur annast rekstur 18 holur golfvallar og 6 holu æfingavallar í Grafarholti ásamt rekstri 27 holu golfvallar og 9 holu æfingavallar á Korpúlfsstöðum. Ennfremur rekur klúbburinn æfingaaðstöðu Bása í Grafarholti auk inniæfinga- og félagsaðstöðu á Korpúlfsstöðum.

Á starfsárinu voru  miklar framkvæmdir á vallarsvæðum félagsins, má þar nefna nýja 17. braut Grafarholts, frágang og formlega opnun 18. brautar, 3. teigur endurnýjaður og viðbótar bílastæði við Bása. Uppbygging á nýrri púttflöt á Korpúlfsstöðum, nýr bakteigur á 12. og 13. braut, nýr framteigur á 17. braut, göngustígagerð og malbikun. Í klúbbhúsi Korpu var fjárfest í nýjum stólum og hljóðeinangrun sett upp í veitingasal sem og fullbúin aðstaða útbúin með Trackman golfhermum sem ætluð er fyrir barna-, unglinga-, og afreksstarf. Í Básum hafa miklar framkvæmdir farið fram, uppsetning á Trackman skjáum og hitalömpum á alla bása 1. og 2. hæðar auk þess sem hurðir voru settar á 2. hæð sem og aðrar minniháttar framkvæmdir.

Fjárhagsáætlun GR 2024 var samþykkt á aðalfundi.  Félagsgjöld 2024 verða:
Félagsmenn 19-26 ára, kr. 76.300
Félagsmenn 27-72 ára, kr. 152.600
Félagsmenn 73 og eldri, kr. 130.800
Félagsmenn 75 ára og eldri*, kr. 98.100
*enda hafi félagi verið í GR í a.m.k. 10 ár samfellt

Leiknir hringir á árinu voru 93.970 samanborið við 108.036 á árinu á undan.  Fækkunin skýrist af slæmu árferði í vor, en vellirnir opnuðu nokkrum vikum síðar en í venjulegu árferði.  Leiknir hringir á vinavöllum voru töluvert fleiri í ár, 5.413 samanborið við 4.713 árið á undan, sem líklegast skýrist af sömu ástæðum. Kynjahlutfall er 39% konur og 61% karla, sem er bæting frá fyrra ári.

Golfklúbbur Reykjavíkur þakkar Árna Tómassyni og Guðmundi Frímannssyni, endurskoðendum, fyrir sína vinnu og kjörnefnd fyrir sitt starf.  Sérstakar þakkir færum við Ólafi Arinbirni fyrir faglega og góða fundarstjórn og félagsmönnum fyrir sína þátttöku.

Stjórn, framkvæmdarstjóri og starfsfólk klúbbsins þakkar félagsmönnum fyrir gott starfsár

Ársreikningur GR 2023
Skýrsla stjórnar 2023