Guðrún Andrésdóttir, 92 ára, Valgerður Proppé, 94 ára, og Hrafnhildur Einarsdóttir, 98 ára, láta sig ekki vanta á golfvöllinn þrátt fyrir tíðræðisaldurinn. Hafa þær sýnt fram á að aldur er aðeins tala þegar kemur að því að njóta lífsins og halda sér og vinasamböndunum virkum.
Guðrún og Valgerður hafa þekkst síðan í kringum árið 1970, en Guðrún kynntist Hrafnhildi um síðustu aldamót. Hrafnhildur og Valgerður bjuggu saman í sömu íbúðablokk og byrjuðu að pútta saman.
Þegar Valgerður sagði Guðrúnu frá golfáhuga þeirra þá ákvað hún að slást í hópinn og fékk golfsett í gjöf frá vinafólki sínu. Þær byrjuðu að spila golf fyrir 21 ári og eru í dag félagar í Golfklúbbi Reykjavíkur. Þrátt fyrir að hafa byrjað á áttræðisaldri hafa þær náð góðum árangri.
„Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt,“ segir Guðrún í samtali við Morgunblaðið. Hópurinn hefur sett sér það markmið að fara einu sinni til tvisvar á ári í golfferðir til útlanda, aðallega til Spánar, og hafa þær farið í þó nokkrar ferðir í gegnum árin.