Evrópumót eldri kylfinga (ESGA) er haldið á hverju ári og í ár eru Íslendingar gestgjafar. Það eru Landssamtök eldri kylfinga (LEK) sem standa fyrir mótinu og verður leikið á Korpúlfsstaðarvelli hjá GR og Hlíðavelli hjá GM. Leikar hefjast á morgun, miðvikudag og verður keppt fram á föstudag.
Keppendur eru alls 228 og koma frá 19 löndum, leikfyrirkomulagið er höggleikur þar sem fjórir bestu telja til skors. Í flokk með forgjöf er keppt í punktakeppni.
Einn megintilgangur LEK er að stuðla að lýðheilsu eldri kylfinga og hefur félagsskapurinn fest sig rækilega í sessi. Á hverju sumri eru átta mót haldin þar sem hægt er að keppa til að vinna sér inn stig, þeir hæstu skipa svo landsliðið að ári. Lið Íslands í ár eru þannig skipuð:
Lið án forgjafar eða championship-liðið (fgj. frá +0,7 upp í 3,5): Guðmundur Arason (GR), Tryggvi Traustason (Setberg) Guðmundur Sigurjónsson (GKG), Hjalti Pálmason (GM), Ólafur Hreinn Jóhannesson (Setberg) og Halldór Ásgrímur Ingólfsson (GK).
Lið með forgjöf keppir um Evrópubikarinn (fgj. 1,9 til 13,6): Gauti Grétarsson (NK), Pall Poulsen (GK), Ingvar Kristinsson (GK), Iouri Zinoviev (GR), Þórhallur Óskarsson (GSG) og Kjartan Jóhannes Einarsson (GKG).
Við óskum íslensku liðunum góðs gengis á Evrópumóti.
Golfklúbbur Reykjavíkur