Kæru félagar,
Við ráðgerum formlega opnun Korpúlfsstaðavallar með hefðbundnu opnunarmóti laugardaginn 10. maí nk. og Grafarholtsvallar viku síðar. Tíðarfar undanfarið hefur verið gott og við höfum væntingar til þess að vellirnir verði í góðu ástandi miðað við árstíma. Framundan er mjög spennandi golfsumar.
Eins og þið þekkið er það þannig á völlunum okkar að færri komast að en vilja. Í síðustu viðhorfskönnun fengum við lægri einkunn fyrir aðgengi að rástímum heldur en síðastliðin tvö ár þar á undan. Við höfum farið í umtalsverða greiningarvinnu í þeim tilgangi að fara yfir og meta hvað við getum gert. Það sem helst slær okkur, án þess að koma beint á óvart, eru eftirfarandi staðreyndir:
- Á fáeinum mínútum eftir að rástímakerfið opnar fyrir nýjan dag er mjög stórt hlutfall rástíma uppbókað.
- Breyting á rástímaskráningum eru afar tíðar. Fjöldi breytinga er meiri heldur en fjöldi rástímanna sem er í boði. Það slær okkur að nokkur fjöldi félagsmanna virðist hafa það í sinni daglegu rútínu að bóka sér rástíma, sem undir hælinn er lagt hvort þeir nýti eða afbóki síðar, með öðrum orðum hamstur sem bitnar á öðrum félagsmönnum.
Við höfum á undanförnum árum fylgst vel með því sem gerist í rástímakerfinu okkar og leitað leiða til að koma sem flestum að á vellina okkar. Við höfum ákveðið að bregðast við framangreindum upplýsingum með eftirfarandi aðgerðum, sem gilda hér eftir:
- Rástímakerfið verður óbreytt að flestu leyti, m.a. að unnt verði að skrá rástíma allt að 8 daga fram í tímann.
- Sú breyting er gerð að félagsmaður getur einungis átt fjóra rástíma bókaða í kerfinu á hverjum tíma, samanlagt á báðum völlum.
- Takmörkun samkvæmt 2. lið gildir ekki um rástíma sem eru lausir samdægurs. Lausir rástímar við opnun dags eru opnir öllum félagsmönnum jafnt, óháð öðrum skráningum. Lausa rástímar er hægt að bóka kl. 20:00 kvöldið áður.
- Geti kylfingur af einhverjum ástæðum ekki mætt í bókaðan rástíma ber honum að afbóka sig hið allra fyrsta og eigi síðar en kl. 08:00 á leikdegi.
- Komi í ljós misnotkun á kennitölum vina eða vandamanna við skráningar verður tekið á því sérstaklega.
- Viðurlög við afskráningum sem berast of seint samkvæmt 4. lið eða alls ekki eru óbreytt frá því í fyrra, þ.e. sjálfkrafa skráningarbann í eina viku. Einnig er áskilinn réttur til að beita viðeigandi viðurlögum komi í ljós annars konar misnotkun á kerfinu.
Reglur um rástímaskráningu hafa verið uppfærðar og eru aðgengilegar á heimasíðu okkar hér Reglur um Rástíma – GR Golf.
Eins og fyrr greinir er markmið með þessum breytingum að bregðast við vaxandi óánægju með aðgengi að rástímum og jafna aðgengi að þeim meðal félagsmanna á sem sanngjarnastan hátt. Jafnframt að stuðla að því að vellirnir nýtist sem flestum á hverjum degi. Við áréttum að í þessum breytingum felst ekki takmörkun á því hversu marga hringi hver og einn félagsmaður getur leikið, heldur snúast breytingar eingöngu um aukið jafnræði.
Við skorum á félagsmenn að hætta öllu hamstri með rástíma, þ.m.t. notkun kennitala vina og vandamanna, og sýna með því tillitsemi við aðra félagsmenn. Vonandi eiga þessar aðgerðir eftir að duga og reynast vel, það er hagur okkar allra. Við munum fylgjast vel með hvernig gengur og bregðast enn frekar við, reynist það nauðsynlegt.
Með GR kveðju og von um gleðilegt golfsumar,
Stjórn og starfsfólk GR