Forskot afrekssjóður úthlutar styrkjum til sex kylfinga – þrír frá Golfklúbbi Reykjavíkur

Forskot, afrekssjóður, mun styðja við bakið á alls sex kylfingum á árinu 2025.

Forskot hefur frá árinu 2012 úthlutað styrkjum til afrekskylfinga og er úthlutunin í ár sú 14. í röðinni.
Að sjóðnum standa: Íslandsbanki, Icelandair, Vörður tryggingar, Bláa Lónið og Golfsamband Íslands.

Frá stofnun sjóðsins hefur markmiðið verið að gera styrkþegum auðveldara fyrir að æfa og keppa við bestu skilyrði í samræmi við það sem gerist á alþjóðlegum vettvangi í golfíþróttinni.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er fædd árið 1994 og hún gerðist atvinnukylfingur árið 2018. Guðrún Brá hefur þrívegis fagnað Íslandsmeistaratitlinum í golfi. Guðrún Brá tryggði sér keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni árið 2020 eftir að hafa leikið á LET Access mótaröðinni frá árinu 2018. Guðrún Brá er með keppnisrétt á LET Access mótaröðinni á þessu tímabili.

Haraldur Franklín Magnús er fæddur árið 1991 en hann gerðist atvinnukylfingur árið 2017. Hann er með keppnisrétt á HotelPlanner Tour (áður Challenge Tour) sem er næst efsti styrkleikaflokkur hjá atvinnukylfingum í karlaflokki í Evrópu. Haraldur Franklín, varð Íslandsmeistari í golfi árið 2012.

Ragnhildur Kristinsdóttir er fædd árið 1997 og varð Íslandsmeistari í golfi 2023. Hún er á sínu þriðja ári sem atvinnukylfingur. Ragnhildur sigraði á fyrra stigi úrtökumótsins fyrir LET Evrópumótaröðina í desember. Hún er með keppnisrétt á LET Access atvinnumótaröðinni á þessu tímabili.

Andrea Bergsdóttir er fædd árið 2000 og gerðist atvinnukylfingur árið 2024. Andrea hefur um árbil verið í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu og vann stærsta sigur íslensks áhugakylfins í kvennaflokki frá upphafi árið 2024 þegar hún sigraði á háskólamóti í Mexíkó. Hún er með keppnisrétt á LET Access atvinnumótaröðinni á þessu tímabili.

Gunnlaugur Árni Sveinsson er fæddur árið 2005 og leikur fyrir LSU háskólann í Bandaríkjunum. Hann sigraði á sterku háskólamóti á sinni fyrstu önn og var undir lok síðasta árs valinn á lista yfir bestu háskólakylfinganna í Bandaríkjunum. Gunnlaugur er fyrsti Íslendingurinn til að vera valinn að keppa fyrir hönd Evrópu í Bonallack Trophy. Enginn Íslendingur hefur komist jafn ofarlega á heimslista áhugakylfinga og Gunnlaugur.

Perla Sól Sigurbrandsdóttir er fædd árið 2006 og mun keppa fyrir LSU háskólann í Bandaríkjunum frá og með haustinu. Perla var Íslandsmeistari í golfi 2022 og Evrópumeistari unglinga sama ár. Perla er fyrsti Íslendingurinn til að keppa fyrir hönd Evrópu í Junior Solheim bikarnum.

Þeir kylfingar sem fá úthlutað úr Forskoti afrekssjóði eru sterkar fyrirmyndir. Það að eiga afreksmenn í íþróttum er stór og mikilvægur þáttur í því að fá börn og unglinga til að sinna íþróttum. Því er litið á sjóðinn sem mikilvægt skref til að efla íþróttir barna og unglinga og hvetja þau til dáða.

 

Hægt er að lesa nánar um úthlutunina inni á Golf.is, með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.

Forskot afrekssjóður úthlutar styrkjum til sex kylfinga – Golfsamband Íslands

 

Við hjá Golfklúbbi Reykjavíkur erum stolt af okkar afrekskylfingum sem fengu úthlutun sjóðsins. Vel gert og til hamingju!