Framkvæmdir í Básum – fyrsti áfangi

Mánudaginn 4. júlí munu framkvæmdir við fyrsta áfanga í bættri æfingaaðstöðu hefjast í Básum. Stjórn félagsins kynnti í fréttabréfi sínu snemma í vor að farið yrði í uppfærslu á æfingasvæðinu til að svara niðurstöðum viðhorfskönnunar sem framkvæmd var í vetur og er nú komið að fyrsta áfanga. Framkvæmdir þessar munu standar yfir vikuna 4.- 8. júlí og munu hafa minniháttar áhrif á starfsemina á meðan á þeim stendur.

Í þessum fyrsta áfanga verða allar mottur á 1. og 2. hæð fjarlægðar og gervigras lagt á báðar hæðirnar.  Af þessum sökum verða nokkrir básar lokaðir hverju sinni meðan skiptin fara fram.  Áætlað er að byrja á 2. hæð og færa sig svo á 1. hæð.

Valið hefur verið hágæða gervigras sem mun bæta aðstöðuna til muna. Trackman og mörg  æfingasvæði um allan heim, bæði innan- og utandyra notast við þetta tiltekna gervigras. Það líkist brautargrasi og stuðlar þannig að því kylfingar fái sem mest út úr æfingunni.  Undirlagið er mjúkt og til þess gert að lágmarka hættu á meiðslum, álagsmeiðslum og þreytu.

Við biðjumst afsökunar á óþægindum sem þessar framkvæmdir kunna að hafa í för með sér. Jafnframt biðjum við kylfinga að sýna iðnaðarmönnum skilning og tillitsemi þessa daga þannig að framkvæmdirnar gangi sem allra best.

Golfklúbbur Reykjavíkur