HM áhugakylfinga í liðakeppni kvenna hefst í dag

Íslenska kvennalandsliðið í golfi hefur leik í dag, miðvikudaginn 24. ágúst, á Heimsmeistaramótinu í liðakeppni áhugakylfinga, Espirito Santo Trophy. Andrea Bergsdóttir og Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG ásamt Ragnhildi Kristinsdóttir úr GR skipa íslenska liðið. Ragnhildur var í íslenska liðinu árið 2018 en Andrea og Hulda Clara hafa ekki leikið á HM áður. Með liðinu í för eru Ólafur Björn Loftsson afreksstjóri og Baldur Gunnbjörnsson sjúkraþjálfari.

Mótið fer nú fram í 29. skipti og er lokadagurinn 27. ágúst. Keppt er á tveimur völlum – Le Golf National og Golf de Saint-Nom-La-Bretèche, sem eru rétt utan við París í Frakklandi.

Alls eru 56 þjóðir sem taka þátt en mótið hefur aðeins einu sinni verið með fleiri liðum, 57 á Írlandi árið 2018.

Ísland leikur með Finnlandi og Argentínu fyrstu tvo keppnisdagana. Mótið er 72 holu höggleikur, og 2 bestu skorin af alls 3 telja á hverjum degi.

Hér má fylgjast með stöðunni í liðakeppni
Hér má fylgjst með stöðunni í einstaklingskeppni

Við óskum íslenska liðinu alls hins besta á Heimsmeistaramóti!
Golfklúbbur Reykjavíkur