Þrír Íslendingar taka þátt á 2. stigi úrstökumóts fyrir DP Evrópumótaröðina, 3. – 6. nóvember

Dagana 3. – 6. nóvember verður keppt á 2. stigi úrtökumótsins fyrir DP Evrópumótaröðina. Haraldur Franklín Magnús úr GR ásamt þeim Bjarka Péturssyni og Guðmundi Ágústi Kristjánssyni úr GKG eru á meðal keppenda. Keppt verður á fjórum mismunandi völlum á Spáni og munu þeir allir þrír leika á sama vellinum, Isla Canela Links í Huelva á Spáni.

Einnig er keppt á Empordia við Girona, Desert Springs við Almeria og Las Colinas við Alicante. Isla Canela völlurinn sem Íslendingarnir leika á kom nýlega inn sem keppnisvöllur en til stóð að keppt yrði á Alenda vellinum við Alicante. Reikna má með að um 20 efstu af hverjum velli komist í gegnum 2. stig úrtökumótsins eða um 80 kylfingar alls.

Upplýsingar um úrtökumótin má sjá hér

Alls var keppt á níu keppnisstöðum á 1. stigi úrtökumótsins víðsvegar um Evrópu og hafa 8 íslenskir kylfingar reynt sig á úrtökumótunum. Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst bætast nú við á 2. Stig og hafa því alls 10 keppendur frá Íslandi reynt fyrir sér á úrtökumótunum í ár – sem er til jafns við met sem var sett árið 2019.

Haraldur Franklín er að keppa í fimmta sinn á úrtökumótinu fyrir DP Evrópumótaröðina og á það sama við um Guðmund Ágúst. Báðir hafa þeir leikið á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour, í ár og þurfa ekki að fara í gegnum 1. stig úrtökumótsins. Bjarki komst í gegnum 1. stig úrtökumótsins á móti sem fram fór á Haugschlag vellinum í Austurríki, þar lék  hann á samtals 7 höggum undir pari. Þetta er í annað sinn sem Bjarki tekur þátt á úrtökumótinu fyrir DP Evrópumótaröðina en hann fór alla leið inn á lokaúrtökumótið, eða 3. stigið, árið 2019. Í kjölfarið fékk hann takmarkaðan keppnisrétt á mótaröðinni á þessu tímabili.