YFIRLÝSING FORMANNS GR

Undanfarna daga hafa fréttir verið birtar af málum þriggja kylfinga, sem mótstjórn Íslandsmóts 50 ára og eldri vísaði til aganefndar.  Meðal þremenninga er Margeir Vilhjálmsson, sem er stjórnarmaður í GR.  Aron Hauksson, sem hefur farið fyrir dómarahópi GR og titlaður yfirdómari, setti nýverið fram þá kröfu til mín að Margeiri verði vikið úr stjórn golfklúbbsins, meðan mál hans er til meðferðar fyrir nefndinni, vegna alvarleika brots að hans mati. Yrði ekki orðið við þessari kröfu segði hann sig frá dómarastörfum fyrir GR.  Ég tjáði Aroni að ekki væri unnt að verða við þessari kröfu, þar sem stjórnarmenn eru kjörnir á aðalfundi og ekki á færi þeirra að víkja öðrum stjórnarmönnum, einum eða fleirum, úr stjórn.  Sjálfsagt væri að ég kynnti stjórn klúbbsins þessi samskipti okkar, óskaði hann þess.  Við svo búið sagði Aron sig frá dómarastörfum fyrir GR, sem var miður.  Hann óskaði ekki eftir að ég kynnti stjórn samskiptin, sem ég þó gerði til upplýsingar.

Í kjölfarið átti ég málefnalegan fund með öðrum dómurum GR á þriðjudaginn sl. Á fundinum var skilningur á minni afstöðu til krafna Arons og að mál Margeirs sé fyrir aganefnd.  Hins vegar kom skýrt fram hjá dómurum að þeir væru ósáttir við framgöngu Margeirs opinberum vettvangi, sem þeir töldu sýna virðingarleysi gagnvart reglum og dómurum.  Þar áttu þeir við framgöngu sem tengist ekki Akureyrarmálinu sem er fyrir aganefnd.  Ég tek fram að fram til þessa höfðu engar slíkar kvartanir eða ábendingar borist, allavega ekki til mín eða stjórnar, og þær því ekki í farvegi hjá GR.  Ég hef gert stjórn grein fyrir þessum fundi mínum með dómurum.  Úrvinnsla eftir fundinn er eftir.

Spurt hefur verið um mína aðkomu og skoðun á aganefndarmálinu.  Í kæru er ég tilgreindur meðal vitna. Segir þar að ég hafi setið fund með einum kærða, dómara og formanni mótstjórnar.  Þennan fund sat ég.  Fundinn bar þannig að ég sat ásamt viðkomandi kærða í golfskálanum á Akureyri framan við sjónvarp.  Hann var kallaður á fund þarna á staðnum.  Hann  bað mig að koma með sér, sem var ekki tiltökumál.  Er við mættum var kærða gerð grein fyrir úrskurði mótstjórnar um frávísun hans úr mótinu, af ástæðum sem komið hafa fram.  Fundurinn stóð í nokkrar mínútur.  Við spurðum einhverra spurninga og færðum fram sjónarmið, eins og okkur datt í hug þarna á staðnum, líkt og gengur og gerist, án nokkurra æsinga.  Fundinum lauk með því að menn tókust í hendur. Síðar sama dag/kvöld sendi ég mótstjóra 2-3 símaskilaboð, með vangaveltum, hvatningu um endurskoðun og að Margeir væri ósáttur.  Það var áður en Facebook færslur urðu til um málið.  Svo hringdi ég í mótstjóra daginn eftir mótslok til að þakka fyrir síðast, og til að árétta að GR væri ekki aðili að þessu óheppilega máli.  Ég legði áherslu á góð samskipti við GSÍ og ég kæmi ekki nálægt málinu sem slíku, þar sem ég mat það þannig að formaður GR ætti að halda sig utan við opinbera umræðu sem hafði skapast.  Það hef ég gert.  Svo hef ég átt nokkurn fjölda annarra samskipta við GSÍ um önnur mál sem hafa verið vinsamleg í alla staði.

Núna les ég og skynja að minni persónu sé blandað í umræðuna. Af þessu tilefni vil ég taka fram að ég hef hér að framan gert grein fyrir minni aðkomu, ef aðkomu má kalla.  Mótsstjórn ákvað að setja það í farveg – með kæru til aganefndar – og þar er málið til meðferðar.  Þar gæti ég engra hagsmuna og tjái mig ekki.  Einhverjir hafa verið gjarnir á að „dæma“ í málinu fyrirfram.  Það er eins og þeir telji sig ekki þurfa að kynna sér öll gögn máls, þ.m.t. hugsanleg andmæli hinna kærðu, þ.e. aðra hlið máls.  Það kann ekki góðri lukku að stýra.  Sem betur fer á þetta við um fæsta dómara.

Ég gæti engra hagsmuna í málinu, en það er alkunna að einn kærðu er í hópi minna bestu vina.  Málsmeðferð og niðurstaða málsins, hver sem hún verður, á ekki að trufla þann vinskap.  Ég álít Margeir einnig vin minn, þó vinasamband okkar sé fjarlægara.  Þá háttar svo til að einn minn nánasti samstarfsmaður til langs tíma og fyrrum formaður GR, Gestur Jónsson, er persónulegur vinur Margeirs.  Hann hefur nú skilað greinargerð fyrir hönd Margeirs til aganefndar.  Hann gerir það sem vinur Margeirs og lögmaður, en ekki þannig að samsamað verði GR.

Í ljósi umræðunnar finnst mér rétt að þetta komi allt fram.  Andmæli kærðu í téðu aganefndarmáli, hver sem þau eru, endurspegla ekki afstöðu stjórnar GR til málanna á einn veg né annan, enda GR hvorki máls- né úrskurðaraðili.  Stjórn GR hefur í mörg horn að líta þessa dagana hefur gengið út frá því að þetta tiltekna mál sé í sínum eðlilega farvegi.  Það er eindreginn vilji minn sem formaður GR, sérstaklega eftir áðurnefndan fund með dómurum, að hugað verði að starfsumhverfi dómara við GR, í samráði við þá, og að það verði í því horfi sem allra best getur verið.

Golfkveðja og njótum þess að spila golfvelli GR í sínu besta ástandi, það sem eftir lifir sumars og hausts.

Gísli Guðni Hall

 

Ps.  Á morgun hefst Korpubikarinn, þar sem flestir bestu kylfingar landsins mæta á okkar frábæra völl.  Ég hvet GR-inga og aðra áhugamenn um golf eindregið til að mæta og fylgjast með.  Engin verður svikinn af þeirri skemmtun.  Upplýsingar um mótið eru á heimasíðu okkar og golf.is.