Fréttabréf frá stjórn – Básar

Kæru félagar,

Nú styttist í opnun vallanna. Svipað og í fyrra mun stjórn GR  nú senda nokkur fréttabréf um það helsta sem er á döfinni og félagar þurfa að vita fyrir vorið.

Við byrjum á Básum. Síðastliðið sumar var skipt um gólfefni í Básum, með besta gervigrasi sem völ er á. Að undanförnu hefur staðið yfir vinna við nokkra áfanga, sem eiga að bæta aðstöðuna enn frekar:

  1. Hitalampar: Settir hafa verið upp hitalampar í alla bása jarðhæðarinnar. Þessir lampar gefa frá sér mjög góðan hita, eins og við fengum að reyna í kuldakastinu í síðastliðnum marsmánuði. Kuldi er því ekki lengur fyrirstaða þess að ná góðri æfingu í Básum. Til að kveikja á hitalömpunum verða rofar og unnt að velja hvort kveikt er á einum, tveimur eða þremur lömpum í einu, en hver lampi er þrískiptur. Þetta er mikilvægt, því það yrði við flestar aðstæður einfaldlega of heitt að hafa kveikt á öllum lömpunum í einu. Þetta er að okkar mati bylting og næsta vetur munum við bjóða kylfinga velkomna í hlýjuna í Básum.
  2. Trackman skjáir: Fjárfest hefur verið í sérstökum skjám frá Trackman, sem eru tengdir við Trackman Range kerfið hjá okkur. Skjáirnir eru 21 tomma að stærð og þola hvers kyns veður sem von getur verið á. Skjáir verða í hverjum bás jarðhæðar. Með þessu fáum við fulla virkni á Trackman Range kerfið. Hvert einasta högg er numið og unnt að spila velli eins og í golfhermi. Munurinn er að slegið er út og kylfingurinn sér boltaflugið. Einnig eru í boði fjölmörg æfingakerfi. Von er á teymi frá Trackman á næstu dögum til að stilla kerfið. Þá hafa nokkrir af okkar betri og efnilegri kylfingum tekið að sér að vera í Básum eftir að kerfið verður uppsett og aðstoða kylfinga við að tileinka sér það, en auk þess munum við leitast við að gera kennsluefni aðgengilegt á heimasíðu klúbbsins.
  3. Skilrúm milli sláttubása: Skilrúmin hafa fengið yfirhalningu þar sem þau gömlu voru farin að þreytast. Vonandi líkar kylfingum við nýja útlitið. Ástæða er til að taka fram að mikil hönunarvinna fór fram varðandi skilrúmin. Hugmyndin var að stækka skilrúmin og við létum gera stærra skilrúm til prufu. Sú prufa leiddi í ljós að ekki er möguleiki á stærri skilrúmum, þar sem það hefði þrengt um of að mögulegu sveiflusviði kylfinga. Staðsetning á hitalömpum og Trackman skjánum var einnig ákveðin með tilliti til þessa.
  4. Skotmörk: Nú fljótlega verða sett upp ný skotmörk með mismunandi fjarlægðum, valin í samráði við þjálfara klúbbsins. Í Trackman kerfinu er möguleiki á allt að 9 skotmörkum, sem kerfið nemur högg út frá, og eru skotmörkin ákveðin með tilliti til þess. Auk þess hafa verið settar upp tvær stærri stangir, að beiðni þjálfara og er hugsunin með þeim að marka hæfilega brautarbreidd. Kylfingum er uppálagt að æfa upphafshöggin og hvers kyns önnur lengri högg, þar sem markmiðið er að hitta á milli stanganna og halda tölfræði um hversu oft það tekst.
  5. Hurðir á annarri hæð: Um þessar mundir er unnið að uppsetningu hurða á annarri hæð líkt og á jarðhæð. Megintilgangurinn er að verja gólfefnin og það sem á annarri hæðinni er, gagnvart veðri og vindum og mynda skjól.

Hvað er framundan? Ætlun okkar er að halda áfram og koma fyrir hitalömpum og Trackman skjám á annarri hæðinni, en við vildum byrja svona og fá smá reynslu áður en næsta skref verður tekið. Fleira er á döfinni í Básum sem tilkynnt verður síðar.

Sem fyrr hvetjum við félagsmenn til að mæta í Bása og æfa sig fyrir tímabilið. Þetta er frábær aðstaða sem við erum með og það sýnir sig að æfingarnar þar skila sér í betra golfi.

Með golfkveðju,
Stjórn GR